Stelpurnar voru vaktar í morgun með "hæ hó og jibbí jei, það er kominn 17. júní" söng. Á biblíulestri heyrðu stelpurnar um hvernig Guð er þríeinn Guð og þær fræddust um hvernig heilagur andi starfar og hver ávöxtur heilags anda er. Birkihlíð og Furuhlíð kepptu um brennótitilinn og stóð Furuhlíð uppi sem brennómeistarar. Þær kepptu svo við foringjana. Í hádegismat fengu stelpurnar brosandi pulsur.
Eftir hádegi var farið í skrúðgöngu í smá rigningu í kringum húsið og upp í kirkju þar sem farið var yfir tilurð þjóðhátíðardagsins, þjóðsöngurinn og önnur lög voru sungin og fjallkonan kom í heimsókn. Fjallkonan blés þjóðarstolti stúlkum í brjóst og las óðinn um kærleikann úr fyrra bréfi Páls til Korintumanna. Því næst var íþróttahúsið opnað fyrir stöðvum þar sem farið var í reipitog, pokahlaup, búnar til 17. júní nælur, fengin andlitsmálnig, jógúrt og vatnsblöðrum hent í foringja og fengið sælgæti.
Í kaffitímanum var snædd hin mikla 17. júní kaka sem er skreytt skúffukaka með mynd af Vindáshlíð sjálfri. Þá var hafist handa við hárgreiðslukeppnina þar sem keppt var í 4 flokkum: Þjóðlegasta greiðslan, krúttlegasta greiðslan, frumlegasta greiðslan og glæsilegasta greiðslan.
Í veislukvöldmat voru pizzur og sátu stelpurnar til borðs í veisluskreyttum salnum. Á veislukvöldvöku sáu foringjarnir um skemmtiatriðin við mikla kátínu stelpnanna. Í Hlíðarsjónvarpinu var komið með skot á hvert herbergi sem stelpurnar höfðu gaman af en voru einnig margar hissa á.
Á hugleiðingu fengu stelpurnar frostpinna og þær heyrðu um hvernig Guð mætti Sakkeusi og hafði áhrif á líf hans. Við erum öll dýrmæt, þrátt fyrir að við höfum gert eitthvað slæmt.
Myndir frá 17. júní eru væntanlegar 18. júní.
Á morgun munu stelpurnar vakna og klára að pakka. Svo munu þær borða morgunmat, mæta á lokastund í kirkjunni og svo leggja af stað til Reykjavíkur um klukkan 11. Við erum þá komnar um klukkan 12 svo gott er ef foreldrar eru mættir 15 mínútum fyrr.
Takk stelpur fyrir góðan flokk! Þið eruð flottar og það var gaman að vera með ykkur í viku. Sjáumst vonandi fljótt aftur 🙂