Mánudagurinn byrjaði með því að stelpurnar fengu kókópöffs og var klappað fyrir þeim sem voru að koma í fyrsta skipti því þegar stelpa hefur verið 3 nætur í Vindáshlíð er hún formlega orðin Hlíðarmeyja.
Farið var í Hlíðarhlaup niður að hliði (1 km) og þaðan rölt í réttirnar þar sem farið var í réttarleikinn. Eftir kaffi var keppt í rúsínuspítingum og broskeppni. Brennókeppnin hélt áfram og nú eru aðeins 6 herbergi eftir (hin fá þó að keppa æfingarleiki).
Á kvöldvöku sýndi Birkihlíð leikritið um Afbrýðissömu drottninguna og Hamrahlíð sýndi Kraftljósið.
Um morguninn fengu stelpurnar að heyra söguna um miskunnsama samverjann sem Jesús sagði til að kenna okkur að við eigum að vera góð við alla menn. Um kvöldið lærðu þær um fyrirgefninguna, hvernig hún bindur enda á hið illa.
Þegar bænakonutíminn byrjaði komu foringjarnir stelpunum á óvart með náttfatapartýi þar sem dansað var uppi á borðum í matsal og farið í leiki og sýnd atriði inni í setustofu. Allar stelpurnar fengu frostpinna í lokinn.
Ég vil minna foreldra á að stelpurnar koma aftur á fimmtudag klukkan 12:00 í þjónustumiðstöð KFUM&KFUK á Holtavegi.