Stelpurnar vöknuðu á ljúfu nótunum eftir góðan svefn enda fengu þær að sofa hálftíma lengur. Stelpurnar gátu valið cocopuffs í morgunmat og var það nánast á hverjum diski. Eftir morgunverð var skipt upp í hópa sem undirbjuggu messuna sem var eftir hádegismat í Hallgrímskirkju í Vindáshlíð. Einn hópur skreytti kirkjuna, annar undirbjó leikrit, þriðji samdi bænir, sá um að hringja kirkjuklukkunum, kveikti á kertum og gerði kærleikskúlur til að hafa í kaffitímanum, en sá fjórði æfði söng sem fluttur var í messunni. Við gæddum okkur á lasagne í hádeginu og strax eftir mat var haldið til messu. Stundin í kirkjunni var yndisleg og að henni lokinni beið okkar ljúffengt síðdegiskaffi. Eftir kaffi var haldið fótboltamót sem var mjög vinsælt hjá stelpunum og tóku margar þátt. Þegar leið á kvöld voru dömurnar orðnar þreyttar og eftir yndislega lokastund og hugleiðingu fóru þær rjóðar í kinnum hver í sína koju.
Hér er að finna
myndir dagsins.