Nú er sumarstarf KFUM og KFUK að hefjast. 1. flokkur Kaldársels (stelpur í stuði) er nú þegar farinn af stað og 1. flokkur Vatnaskógar fer í dag þ.e. þann 3. júní. Í næstu viku munu síðan hinar sumarbúðirnar fara í gang. Undirbúningur hefur gengið vel og eru sumarbúðirnar að komast í sumarskrúða og verið að gera allt klárt.
Starfsfólk hefur einnig undirbúið sig af kostgæfni og sótt námskeið til þess að vera sem best undirbúin til að mæta verkefnum sumarsins.
Námskeið um fyrstu hjálp, brunavarnir, verndum þau og staðbundin námskeið í hverjum sumarbúðum eru meðal þess sem starfsmenn sumarsins hafa farið í. Lokahnykkur undirbúnings starfsmanna fór fram í Vindáshlíð þann 31. maí. Meðal þess sem var á dagskrá var "Agi og samskipti við börn" í umsjón Gylfa Jóns Gylfasonar sálfræðings, sálgæsla barna í umsjón Þráins Haraldssonar og samskipti á vinnustað í umsjón Eyþórs Eðvarðssonar. Þá var fræðsluefni sumarbúðanna kynnt í umsjón Sigríðar Schram.
Starfsmenn komandi sumars eru því orðin spennt og tilbúin að taka á móti börnum og unglingum í sumarbúðir KFUM og KFUK í sumar.