Á þessum fallega degi í Vindáshlíð vöknuðu 101 stúlka af værum blundi í morgunsárið, gerðu sig til fyrir daginn og fengu hollan og staðgóðan morgunverð.
Að morgunverð loknum fóru þær út á fánahyllingu og því næst í niður í sal á Biblíulestur þar sem þær lærðu um orð Guðs og hvernig það getur vísað okkur veginn í lífinu. Í tengslum við fræðsluna fóru stúlkurnar í skemmtilegan leik og reyndu að hengja hala á asna með bundið fyrir augun.
Því næst voru íþrótta- og brennókeppnir og boðið var upp á vinabandagerð og listasmiðja var opin – en stúlkurnar hafa verið iðnar við að búa til fegurstu tágkörfur þar ásamt fleiru.
Í hádegismatinn fengu stúlkurnar íslenskt lambalæri með kartöflum, sósu, rauðkáli og rabarbarasultu.
Eftir hádegismatinn hófst undirbúningur tískusýningar þar sem stúlkur í hverju herbergi unnu að því í sameiningu að sjá um hárgreiðslu, förðun og kjólahönnun á eina eða tvær úr herberginu undir þemanu ,,Fantasía“ og fólst áskorunin meðal annars í því að eina efnið í hvern kjól mátti vera einn og hálfur ruslapoki, álpappír og hvað-sem-er úr náttúrunni. Stelpurnar sýndu og sönnuðu að þær eru ákaflega skapandi og hugmyndaríkar og má sjá myndir frá tískusýningunni sem haldin var í íþróttahúsinu hér á síðunni.
Í kaffitímanum fengu stelpurnar döðlubrauð og fagurskreytta stjörnusúkkulaðiköku.
Að kaffitíma loknum var húllakeppni , listasmiðja var opin og einnig var boðið upp á vinabandagerð í setustofunni. Einnig nýttu margar stelpur veðurblíðuna og léku sér úti í ýmsum leikjum eða undirbjuggu söngatriði fyrir guðþjónustu í kirkjunni.
Í kvöldmatinn fengu þær kakósúpu og smurt brauð og um kvöldið var svo guðþjónusta í Hallgrímskirkju í Vindáshlíð. Fallegur söngurinn ómaði um hlíðina og í guðþjónustunni fengu stúlkurnar að sjá og heyra söguna af týnda syninum í flutningi foringja og forstöðukvenna Vindáshlíðar. Í tengslum við söguna lærðu þær um föðurkærleika Guðs.
Í kvöldkaffinu fengu stúlkurnar epli, banana og appelsínur og að því loknu var tannburstun í læknum og stund með bænakonum inni á herbergjum. Á miðri stundinni var stúlkunum komið á óvart með óvæntu náttfatapartýi og þustu þær allar inn í matsal til að dansa við dunandi tónlist. Í framhaldi af því færðu þær sig inn í setustofu þar sem foringjar héldu uppi gamninu með hinum ýmsu leikjum en í miðju gamninu komu stúlkurnar auga á ,,ferðamenn“ úti á túni sem hugðust tjalda á miðjum fótboltavellinum. Ferðamennirnir voru færðir inn í setustofu og gerðu foringjar tilraunir til að túlka og skilja hvað þessir undarlega kunnuglegu ferðamenn hefðu í hyggju. Þeim var að lokum boðin gisting í setustofunni gegn einhverju gjaldi og borguðu þeir glaðir fyrir sig með íspinnum sem þeir splæstu á allt liðið (það skal tekið fram að ekki var um eiginlega ferðamenn að ræða heldur starfsfólk Vindáshlíðar í dulargerfi).