Glaðar og spenntar stúlkur fóru frá þjónustumiðstöð KFUM og KFUK á Holtavegi kl. 9 og renndu í hlað í Vindáshlíð tæpum klukkutíma síðar í mildu og góðu veðri. Stúlkurnar fengu kynningu á staðnum, komu sér fyrir í herbergjunum og fóru svo í ratleik um svæðið. Í hádegismat voru pítu með innihaldi að eigin vali og þar kynntust stelpurnar bæði borðsöng Vindáshlíðar og helstu venjum í matsalnum. Eftir hádegi hófst brennókeppni milli herbergja enda brennó einn vinsælasti leikurinn. Sólin skein og kaffitími var haldinn úti. Í kjölfarið var húshlaupið sem fólst í að stelpurnar hlupu hringinn í kringum húsið á eins stuttum tíma og þær gátu hver og ein. Í kvöldmatinn svar svo skyr og brauð sem rann ljúflega niður eftir sólríkan dag. Á kvöldvöku sýndu þrjú herbergi leikrit sem þær höfðu undirbúið og stýrðu líka nokkrum leikjum sem féllu mjög vel í kramið. Að kvöldvöku lokinni var kvöldhressing sem samanstóð af ávöxtum og mjólkurkexi fyrir þá sem vildu. Síðan heyrðum við hugleiðingu út frá Guðs orði í setustofunni. Þegar allar stúlkurnar höfðu þvegið sér og undibúið fyrir svefninn komu bænakonur þeirra inn á herbergin, spjölluðu um atburði dagsins, sögðu jafnvel sögu eða sungu en kvöldstundinni lauk með bæn. Það voru því þreyttar stúlkur sem sofnuðu þetta kvöld í Vindáshlíð, þessari yndislegu náttúruperlu í Kjósinni.

Myndir hér.