Stúlkurnar sváfu til klukkan níu í morgun og voru margar sem höfðu sofið í 10 tíma þegar þær fóru á fætur. Það voru því endurnærðar og vel hvíldar stúlkur sem mættu í morgunmat. Eftir hann var morgunstund og síðan hélt brennókeppnin áfram milli herbergja. Íþróttakeppnin í dag fólst í broskeppni þar sem leitað er að breiðasta brosinu. Í hádegismat var blómkálssúpa og heimabakað brauð. Eftir hádegi var sól og hiti og gengu stúlkurnar að Brúðarslæðu og Pokafossi sem eru fallegir fossar hér í nágrenni Vindáshlíðar. Við Brúðarslæðu sulluðu stelpurnar, sumar í sundfötum en aðrar létu duga að vaða. Þegar heim var komið beið þeirra nýbökuð súkkulaðikaka, bananar og kex sem allt rann ótrúlega fljótt niður í svanga maga. Eftir kaffi skipust stúlkurnar á að keppa í brennó, broskeppni eða léku sér í aparólunni og skógarlundunum hérna við húsið. Fyrir kvöldmat voru líka allar stúlkurnar búnar að fara í sturtu. Í kvöldmat var spagettí sem sló í gegn. Kvöldvakan hófst svo klukkan átta og voru þrjú herbergi með leikrit og leiki. Að lokinni kvöldvöku, kvöldhressingu og hugleiðingunni í setustofunni fór stór hópur stelpna niður eftir að læk til að bursta tennur. Þar var mjög hressileg stemmning. Þegar bænakonur áttu að koma inn í herbergin upphófst mikið náttfatapartý. Þar var dansað og tjúttað í góða stund, starfsfólk sýndi leikrit og farið var í leiki. Þetta var geggjað stuð og til að komast í rólegri takt fengu stúlkurnar íspinna og lesin var saga. Það voru því sælar en þreyttar stúlkur sem fóru í rúmið eftir viðburðaríkan dag á þessum dásamlega stað.

Myndir hér