Bananadagurinn sló heldur betur í gegn í gær. Foringjar voru allir klæddir upp eins og bananar, sumir grænir, aðrir gulir og enn aðrir voru brúnir bananar. Bananalög voru sunginn og bananakaka borðuð.

Í gærkvöldi var svo farið í lífsgöngu, en í þeim leik ganga stelpurnar eftir torfærum vegi með bundið fyrir augun. Þær fylgja reipi sem strengt hefur verið milli íþróttahúss og kirkju og reipið táknar Jesú sem vill leiða okkur rétta veginn. Stelpurnar mæta ýmsum hindrunum á leiðinni en svo lengi sem þær halda í bandið komast þær öruggar á leiðarenda.

Eftir Lífsgönguna var svo tendrað lítið bál út við eldstæðið okkar, allir fengu sykurpúða og svo var sungið við varðeldinn. Þetta var mjög skemmtilegt og allar komu þreyttar inn og sofnuðu fljótt, enda komið fram að miðnætti.

Ákveðið var að fá að sofa aðeins lengur en venjulega og við sváfum allar vært til klukkan 10 í morgun. Eftir morgunmatinn var svo morgunbíó og nú sitja allar enn í náttfötunum með sængurnar sínar og svefnpoka á dýnum niðri í kvöldvöku sal og horfa á Mamma Mia.

Í dag verður svo eitthvað sprell í gangi útfrá myndinni, söngvar sungnir og skemmtilegheit.

Gleði og fjör er mest áberandi í andrúmsloftinu hjá okkur þessa vikuna og stelpurnar hver annarri yndislegri.

Myndir eru komnar á myndasíðuna okkar og þær má finna hér: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157657098218261/

Með bestu kveðjum
Anna Arnardóttir
Forstöðukona