Í morgun sváfu stúlkurnar til kl. 9:30 enda þreyttar eftir langan dag í gær. Þær voru vaktar með laginu Sokkar á tásur og langermapeysur, frumsamið lag og texti forstöðukonunnar sem flytur boðskap um klæðnað við morgunverðarborðið og gleður jafn mikið á hverjum morgni J. Þessi dagur er sérstakur því þær sem gist hafa þrjár nætur í Vindáshlíð í flokki eru orðnar Hlíðarmeyjar. Því var óvenjulegur morgunmatur sem gladdi margar. Eftir morgunmat og fánahyllingu var morgunstundin þar sem Auður talaði um að við eigum að koma vel fram við náunga okkar, hvort sem þeir eru vinir okkar eða ekki. Síðan tók við brennó og íþróttakeppni. Í hádegismat var ávaxtasúrmjólk með súkkulaðiflögum ásamt heitum brauði með skinku og/eða osti. Eftir hádegið var farin ævintýraferð sem fólst í leit að jóðlandi álfastúlku. Allar voru vel búnar því úti var rigning en ekki mikill vindur. Eftir miðdegishressingu með kökum og smurðu brauði tóku við undanúrslitaleikir í brennó, sturtuferðir og undirbúningur kvöldvöku. Í kvöldmat voru kjötbollur sem vægast sagt slógu í gegn og voru nokkrar sem nærri borðuðu á sig gat. Á kvöldvökunni voru flott skemmtiatriði og leikir og svo sungu þær kröftuglega. Dagskrá dagsins lauk eins og venjulega í setustofunni þar sem stúlkurnar heyrðu söguna um gömlu þrestina í búrinu og minnti okkur á að allar eru við einstakar og dýrmætar. Þær sem vildu fóru síðan niður að læk til að bursta tennur þótt úti væri nærri lárétt rigning. Bænakonur fóru svo hver inn til síns hóps og spjölluðu við sinn hóp, lásu sögu og enduðu daginn með bæn.

Þessi blauti dagur hefur verið líflegur og þurrkgeymslan er full. Stúlkurnar sofnuðu fekar fljótt enda þreyttar og sælar eftir útiveru, leiki og grín af ýmsum gerðum.

Hlýjar en votar kveðjur úr Vindáshlíð,

Auður forstöðukona