Í morgun vöknuðum við á frekar hressilegan hátt um kl. 8.30. Brunakerfi staðarins fór af stað og stukku starfsmenn og börn fram úr rúmum sínum. Mjög fljótt kom í ljós að heitt vatn og gufa hafði ræst kerfið og engin hætta var á ferðum. Skýrt verklag við slíkar aðstæður virkaði vel og erum við þakklátar fyrir námskeið og æfingar starfsfólks. En úr því við vorum vaknaðar fórum við bara rólega á fætur, hittumst í setustofunni fyrir morgunmat og ræddum hvernig okkur leið. Síðan fengum við okkur góðan morgunverð og hófu annars þéttskipaða dagskrá veisludags. Eftir fánahyllingu var morgunstund þar sem Auður talaði um að við ættum ekki að dæma aðra heldur líta okkur nær. Eftir morgunstund var svo úrslitaleikurinn í brennó þar sem stúlkurnar í Lækjarhlíð kepptu við stúlkurnar í Gljúfrahlíð. Lækjarhlíðarstúlku fóru með sigur af hólmi og voru að sjálfsögðu feikilega glaðar. Í hádegismat var pastaréttur með kjúklingi og grænmeti, nokkuð sem féll vel í kramið hjá hópnum. Eftir hádegi var gefin stund til að taka til en á meðan var stillt upp í matsalnum svo þeir sem vildu gætu horft á landsleikinn í fótbolta. Aðrir fóru í spilahorn eða að leika sér. Í leikhlé var eftirmiðdagshressing sem hvarf eins og dögg fyrir sólu. Síðan tók við meiri fótbolti, föndur og leikir. Næst var hárgreiðslukeppni sem kallaði fram listafínar hárgreiðslur þar sem nýtt voru blóm og plastflöskur af mikilli sköpun. Þá var komið að því sem flestar voru búnar að bíða eftir. Stúlkurnar fóru í sín herbergi, skiptu um föt og snyrtu sig fyrir veislukvöldverðinn. Áður en sest var til borðs fóru þær og tóku niður fánann, sungu „vefa mjúka …“ og komu svo í stofuna eitt herbergi í einu í hópmyndatöku. Síðan hófst hátíðarkvöldverður í skreyttum matsal með huggulegum ljósum og ljúfri stemmningu. Í kvöldmatinn var heimagerð pizza eins og hver vildi í sig láta – og það var talsvert. Þá sýndu foringjar listræna tilburði og afhentu verðlaun og viðurkenningar fyrir íþróttakeppnir af margskonar tagi. Stuttu eftir matinn hófst söngstund í salnum niðri og í kjölfarið hófst veislukvöldvaka þar sem foringjar sáu um skemmtiatriði. Sýndu þeir á sér algerlega nýjar hliðar en nánar um það má sjá á myndasíðunni okkar! Eftir kvöldvökuna fluttum við okkur upp í setustofu þar sem stúlkurnar heyrðu söguna um flóðið í Hvergilandi og hvernig bænasvör eru stundum öðruvísi en við eigum von á. Stúlkurnar fengu íspinna, við spjölluðum og síðan fóru þær sem vildu niður að læk að bursta tennur. Bænakonur sátu síðan góða stund hjá sínum stúlkum enda síðasta kvöldið okkar saman.
Þetta var líflegur dagur hérna í Vindáshlíð, veður var milt og gott og við allar þakklátar hver fyrir aðra.

Góðar kveðjur,

Auður forstöðukona