Sjö hressar stelpur mættu í gærmorgun með rútu upp í Vindáshlíð og tóku foringjar vel á móti þeim. Þeim var raðað í tvö herbergi og fengu kynningu á staðnum. Eftir dýrindis hádegismat var farið í skemmtilegan ratleik um svæðið og var svo boðið upp á leiki úti í góða veðrinu og föndur. Eftir kaffitímann hélt svo hópurinn af stað upp að Sandfellstjörn þar sem allar stelpurnar fóru að vaða í tjörninni og skemmtu þær sér ákaflega vel. Í frjálsa tímanum nýttu stelpurnar tímann til að fara í íþróttahúsið, aparóluna og apabrúnna ásamt því að perla, lita og gera vinabönd. Haldin var svo kvöldvaka þar sem stelpurnar gerðu leikrit og dans, hlustuðu á hugleiðingu um Miskunsama Samverjann og sungu saman nokkur lög. Kvöldvakan endaði á kvöldkaffi sem var í útilegu formi þar sem stelpurnar fengu grillað brauð á pinna og ávexti og hlustuðu á æsispennandi sögu um górilluísbjörn. Eftir þennan frábæra dag fengu þær að tannbursta sig í læknum og komu svo bænakonur og enduðu daginn með þeim. Stelpurnar sofnuðu allar fljótlega og voru spenntar fyrir næsta degi.