Stelpurnar komu upp í Vindáshlíð í blíðskaparveðri og var stemmningin róleg og góð í rútuferðinni. Þegar inn var komið settust þær í matsalinn þar sem við kynntum starfsfólkið og fórum yfir nokkrar góðar reglur sem gott er að fara eftir í stórum hóp. Grjónagrauturinn sló svo í gegn í hádeginu og þar næst var haldið út í ratleik þar sem þær fengu að kynnast hvorri annarri, svæðinu og spreyta sig á auðveldum spurningum.

Í kaffitímanum fengu þær nýbakaða, ljúffenga gulrótarköku og bananabrauð. Eftir kaffitíma var svo farið í íþróttakeppnir og brennóleiki.

Í kvöldmat var tortilla með kjúkling og þar á eftir stórskemmtileg kvöldvaka þar sem við fórum í leiki, sungum saman og sáum foringjaleikrit. Eftir kvöldkaffið og rólega stund í setustofunni fóru bænakonurnar inn í herbergin og komu stelpunum í ró með spjalli, sögum og bænum. Allar sváfu vært og vöknuðu hressar í morgun.