Við vöktum stelpurnar kl 9:15, þær fengu að sofa aðeins lengur eftir fjörið í náttfatapartýinu en flestar sofnuð um 11 leitið kvöldið áður. Morgunmaturinn var á sínum stað, gengið út að fána og síðan stutt fræðsla með forstöðukonu í kvöldvökusal. Á meðan skúruðu foringjarnir öll svefnherbergin en stelpurnar hjálpuðu einmitt til með því að setja fötin sín og dót upp í rúm rétt eftir morgunmat. Brennókeppni milli herbergja var að sjálfsögðu á sínum stað. Hádegismaturinn vakti mikla lukku en það voru hamborgarar með salati að eigin vali og hamborgarasósu fyrir þær sem vildu.

Útiveran í dag var stutt ferð upp að Sandfellstjörn þar sem þær fengu að vaða smá áður en þær fóru til baka. Þær fengu stuttan regnskúr á leiðinni en komu allar hressar og útiteknar til baka. Í kaffinu fengu þær síðan bananabrauð og epli. Að því loknu byrjaði undirbúningur herbergjanna fyrir kvöldvökuna. Einnig var brennó og íþróttakeppni í boði fram að kvöldmat kl 18:30 þar sem ávaxtasúrmjólk og brauð var í boði. Kvöldvakan byrjaði 19:45 og eins og alltaf var mikið sungið, sprellað og hlegið enda leikritin og leikirnir hjá herbergjunum ekki af verri endanum. Síðan var haldið í kvöldkaffið þar sem ávextir voru í boði og eftir það var stutt hugleiðing og nokkur lög sungin við píanó undirspil. Í lok kvöldsins tók aðeins lengri tíma að koma á ró því stelpurnar voru svo mikið að spjalla og hlæja en allt gekk vel og um 10:50 voru flestar sofnaðar. Þriðji dagurinn í Vindáshlíð að kvöldi kominn með alveg frábærum hóp af skemmtilegum stelpum.