Það er sólríkur dagur framundan! Við vöktum þær kl 9 í morgun og verðlaunuðum þær með Coco Puffs í morgunmat samkvæmt hefðinni að eftir þrjár nætur í Vindáshlíð sértu orðin “Hlíðarmey”. Það vakti lukku. Fánahylling, biblíufræðslan og íþróttakeppnin voru svo á sýnum stað og í hádegismat var plokkfiskur og rúgbrauð. Í útiverunni var gengið að Pokafossi og Brúðarslæðu, tveimur fallegum fossum hér í nágrenninu. Hjá læknum sem rennur úr Brúðarslæðu var vaðið í sólinni. Í kaffinu voru súkkulaðibitakökur og heilhveitbollur með smjöri og osti. Því næst var brennókeppni og útivera í sólinni. Undirbúningur fyrir hæfileikasýningu kvöldsins fór á fullt og boðið var upp á það að fara í sturtu eins og var líka gert daginn áður. Í kvöldmat var síðan pylsupasta með bökuðum baunum og bræddum osti. Á kvöldvökunni fengum við að sjá breiðan hóp hæfileikaríkra stelpna sína skært þegar þær sýndu hæfileika sýna fyrir “dómnefndinni” sem gerði lítið annað en ausa lofsyrðum yfir þær á mjög skemmtilegan og fyndinn hátt. Síðan var boðið upp á epli, jarðaber og matarkex í kvöldkaffinu. Kvöldið endaði síðan með hugleiðingu í setustofu og löngu bænó í lokin því stelpurnar voru í mjög góðu skapi og töluðu og hlógu mikið. Ró komst á frekar seint en samt í tæka tíð til að fá nægan svefn yfir nóttina. Æðislegur dagur í dag með sól og mikið af brosmildum stelpum.