Í dag var veisludagur og mikið um að vera. Í morgunmat var boðið upp á cherios, cornflex, súrmjólk, rúsínur, mjólk og hafragraut. Fastir liðir eins og fáni og fræðsla voru á sínum stað. Síðan var hinn æsispennandi úrslitaleikur í brennó milli herbergjanna þar sem kom í ljós hverjir brennómeistararnir voru. Einnig var frjáls tími með vinaböndum og útiveru fyrir áhugasamar. Eftir hádegismat var haldið í útiveru með leikjum í dásamlega fallega umhverfinu okkar hér í Kjósinni.

Svo eftir kaffi tók við hárgreiðslukeppni og vinagangur þar sem hvert herbergi setti upp skemmtileg og skapandi tilboð fyrir hinar stelpurnar að kíkja í heimsókn í næstu herbergi.

“Vefa mjúka, dýra dúka” lagið var á sínum stað þar sem allir labba í gegnum heiðursgöng og stelpurnar halda saman höndunum og syngja. Þetta er falleg hefð sem hefur fylgt staðnum í áratugi. Síðan stilltu stelpurnar sér upp með bænakonunni sinni í myndatöku og allar komnir í sparifötin. Matsalurinn breyttist í veisluhöll með skreytingum og nýrri uppröðun á borðum, svona aðeins meiri kósýheit og kerti. Pizzuveislan klikkaði ekki og verðlaunaafhendingin fyrir íþrótta, brennó og innanhúss tiltektarkeppni voru veittar fyrir bestu frammistöðurnar. Eftir stutt hlé var svo haldið niður í kvöldvökusal þar sem foringjarnir fóru á kostum og leikhæfileikarnir fengu að njóta sín. Mikið var hlegið og sungið. Kvöldkaffið var fært inn í setustofu og til hátíðarbrigða fengu þær íspinna og matarkex. Þar fengu þær að heyra sniðuga og hvetjandi hugleiðingu frá foringja og við sungum líka saman falleg lög. Allar þær sem vildu fengu að fara í síðasta skipti út að læk til að tannbursta sig, en það er mikill sjarmi og spenna yfir því að fá að skjótast aðeins út í náttúruna fyrir svefninn. Bænakonurnar voru síðan með þeim inn á herbergjunum í hálftíma og sögðu sögur, töluðu saman og báðu saman til Guðs. Mikið ofboðslega er þetta búinn að vera skemmtilegur hópur og frábær vika. Á morgun er síðasti dagurinn og við munum koma á Holtaveginn rétt að verða 16:00.