Veisludagur

Í gær vöknuðu stelpurnar eldhressar enda veisludagur fram undan svo spennan var mikil. Í morgunmat fengu stelpurnar hafragraut og morgunkorn eins og vanalega. En í dag fengu þær sér nú flestar súkkulaði coco pops, því að þær eru orðnar Hlíðarmeyjar. Í Vindáshlíð er það nú þannig að þegar þær hafa dvalið í þrjár nætur samfleytt í dvalarflokki þá fá þær titilinn Hlíðarmeyja og auðvitað þarf að halda upp á það með sparilegum morgunmat.

Svo var haldið út að fána og á morgunstund með forstöðukonu. Að þessu sinni ræddum við saman um bænina Faðir Vorið og hvað allt saman þýddi í þessari frábæru bæn.

Eftir morgunstund var svo loksins komið að keppa í úrslitum í brennómótinu. Það var Barmahlíð sem stóð uppi sem sigurvegarar og eru því brennómeistarar 3. flokks 2024. Brennómeistararnir fá svo að keppa við foringjana í dag.

Í hádegismat var boðið upp á lasagna og hvítlauksbrauð. Svo skiptu stelpurnar sér í hópa fyrir veislukvöldsmessuna okkar í kvöld. Þær fengu að velja á milli þess að vera í undirbúnings- og bænahóp, sönghóp, leikritahóp, og skreytingarhóp.

Í kaffinu var Ísabella bakari búin að baka sjónvarpsköku og kanillengjur sem stelpurnar voru voða sáttar með.

Eftir kaffi var svo komið að hinum sí vinsæla og skemmtilega vinagangi. En vinagangur er eitthvað sem að við gerum alltaf á veisludag hér í Vindáshlíð en þá mega stelpurnar bjóða upp á eitthvað skemmtilegt inn í sínu herbergi og bjóða öðrum stelpum og foringjum að kíkja í heimsókn. Vinsælast var að bjóða upp á nudd, naglalökkun, bangsapössun eða hárgreiðslu. Um klukkan sex voru stelpurnar allar orðnar fínar og sætar fyrir veislukvöldið sem fram undan var.

Við byrjuðum á því að fara í kirkjuna okkar, Hallgrímskirkju. Stelpurnar voru sjálfar búnar að undirbúa allt og héldum við því saman alvöru Vindáshlíðarmessu. Sönghópurinn söng nokkur falleg lög, leikhópurinn sýndi leikritið um góða hirðinn, undirbúnings- og bænahópurinn hringdi kirkjuklukkunum, gaf stelpunum kærleikskúlur (kókoskúlur), fór með bænir og passaði allt skipulag, og skreytingarhópurinn var búinn að skreyta alla kirkjuna.

Þegar við vorum búnar í kirkjunni fórum við að vefa mjúka sem er gömul og skemmtileg hefð í Vindáshlíð. Vanalega gerum við það úti en í þetta skiptið gerðum við það inni vegna rigningarinnar. Í veislukvöldmatinn var svo boðið upp á pizzur og djús, sem þær voru nú heldur betur sáttar með. Næst tók veislukvöldvakan við sem er oft hápunktur vikunnar hjá stelpunum en þá stíga foringjarnir á svið og eru með leikrit og var mikið hlegið. Í hugleiðingunni fengu svo stúlkurnar íspinna og heyrðu söguna “Óskirnar 10” frá Sölku. Það voru því mjög þreyttar stelpur sem sofnuðu hér í Hlíðinni eftir viðburðaríkan dag.

 

Brottfarardagur, heimkoma á eftir

Í dag fengu stelpurnar að sofa aðeins lengur þar sem þær fóru seinna að sofa í gærkvöldi. Þær fengu sér góðan morgunmat og svo héldu þær í kveðjustund með forstöðukonu. Þar heyrðu stelpurnar söguna af kirkjunni sjálfri og við sungum okkar uppáhaldslög saman í seinasta skipti í flokknum.

Núna eru stelpurnar í foringjabrennó en þar mæta brennómeistararnir í Barmahlíð foringjum Vindáshlíðar. Að því loknu verður pylsu partý áður en við höldum heim.

Á eftir fer rútan frá Vindáshlíð kl 14:00 og verður því komin upp á Holtaveg 28 um klukkan 14:40. Þau ykkar sem ætlið að sækja stelpurnar ykkar upp í Vindáshlíð verðið því að sækja þær ekki seinna en 14:00. Endilega látið mig vita ef þið ætlið að sækja dömurnar ykkar, ef ég veit ekki af því nú þegar, svo að farangurinn lendi ekki óvart inn í rútunni. Það er hægt að hafa samband við mig í síma 566-7044.

Seinast en ekki síst minni ég enn og aftur myndirnar úr flokknum hér.

Við í Vindáshlíð erum alveg rosalega þakklátar fyrir að hafa fengið að kynnast þessum frábæru stelpum, þeirra verður saknað og vonumst til að sjá sem flestar aftur í Hlíðinni!

 

Hlýjar kveðjur,

Helga Sóley forstöðukona