Sæl öll!

Í gær var skemmtilegur dagur í Vindáshlíð. Stelpurnar sváfu vel og lengi og þurfti að vekja þær allflestar um níuleytið. Þær fengu svo morgunmat, fóru að fána og komu svo inn á Biblíulestur. Þar ræddum við um fordóma og fórum í gegnum söguna um Miskunnsama Samverjann og léku stelpurnar karaktera í sögunni á meðan hún var sögð. Svo fórum við í leik þar sem stelpurnar fengu diska aftan á bakið og gengu um og skrifuðu eitthvað fallegt um hvor aðra á diskana. Eftir þetta var hefðbundin brennódagskrá ásamt því sem þær kepptu í minniskeppni og broskeppni. Stelpurnar fengu svo skyr og nýbakað brauð í hádeginu og borðuðu vel af því. Eftir hádegi gengu þær að fossinum Brúðarslæðu og fengu að vaða og leika sér í vatninu í góða veðrinu. Þær komu svo heim og fengu dýrindis bananabrauð og möndluköku í kaffinu. Eftir kaffi var svo aftur komið að brennó og íþróttakeppnum sem og undirbúningi sex herbergja fyrir kvöldvöku kvöldsins.

Í kvöldmat fengu þær kjúklingaborgara og franskar og voru þær mjög ánægðar með það. Eftir mat kom svo að kvöldvöku þar sem var mikið stuð. Svo fórum við á hugleiðingu þar sem talað var um hugrekki og þrautsegju. Stelpurnar fengu svo að sjálfsögðu kvöldkaffi og fóru sáttar að sofa.

Í kvöld fer ég svo úr flokknum og Hanna Lára tekur við á brottfarardegi.

Kveðja frá forstöðukonu,

Kristjana!