Í grenjandi rigningu hér í Hlíðinni fríðu má heyra hlátrasköll og gleðióp úr öllum áttum. Eftir mikinn spenning er sumarstarfið okkar þetta árið nú loksins farið í gang, og fyrsti hópurinn að klára sinn fyrsta sólarhring í Vindáshlíð.

Hér eru saman komnar 82 stúlkur á aldrinum 9-11 ára. Um helmingur hópsins hefur komið áður í Vindáshlíð og hinn helmingurinn að koma í fyrsta skipti. Hér eru því nokkrir reynsluboltar sem eru tilbúnir að kenna þeim nýju á hefðir og venjur okkar hér í Hlíðinni. Allir eru að aðlagast vel þó enn sé verið að þjálfa upp sambúðarhæfni stúlknanna og slípa til reglur um háttsemi og hegðun. Fyrsta nóttin var brösótt og margar sem áttu erfitt með að festa svefn í gærkvöldi. Allar þurftu þær þó að gefa sig á vald draumalandsins fyrr eða síðar og hér var svo vaknað í blússandi stemningu í morgun, þær fyrstu um klukkan 6.

Stelpurnar í Skógarhlíð halda af stað í ratleik

Stelpurnar í Skógarhlíð halda af stað í ratleik

Í þessum skrifuðu orðum eru stelpurnar að njóta rigningarinnar í útiveru dagsins, en í dag var farið í Amazing Race ratleik um svæðið, þar sem markmiðið er að þær kynnist nærumhverfinu okkar sem best. Þær mæta svo nokkrum foringjum á hlaupum sínum um svæðið, og upplifa alls kyns ævintýri. Brennókeppnin er komin á ról og voru leikir spilaðir bæði í gær og í morgun. Öll herbergi hafa því spilað tvo leiki núna, og munu spila sinn þriðja núna seinni partinn. Þá hefur mikið verið föndrað og góð þátttaka í íþróttakeppnirnar sem eru búnar, en það eru annars vegar plankakeppni og hins vegar broskeppni. Þrjú herbergi voru með skemmtiatriði á kvöldvöku í gærkvöldi, og fjögur herbergi á dagskrá í kvöld.

Á hugleiðingu í gær heyrðu stelpurnar söguna af systrunum Mörtu og Maríu og á biblíulestri í morgun töluðum við um Biblíuna, hvað sé svona merkilegt við hana, hvaðan hún kemur, og hvernig við notum hana. Hópurinn tekur virkan þátt í fræðslustundum, og taka stúlkurnar virkilega vel undir í söng, sem er dásamlegt!

Svo héðan út Hlíðinni er sannarlega allt gott að frétta 🙂

Með kveðju,
Tinna Rós, forstöðukona.