Í dag vöknuðu stelpurnar í Oz, þar sem þema dagsins var Galdrakarlinn í Oz. Eftir hefðbundinn morgunmat hlupu stelpurnar út að fána og þaðan lá leiðin í biblíulestur með forstöðukonu. Á biblíulestri töluðum við um bænina, hvernig hún virkar, hvernig er hægt að biðja og fyrir hverju. Við spjölluðum um hvers vegna Guð virðist ekki bænheyra allar bænir og hvað það er sem skiptir máli. Eftir biblíulestur fóru fram brennó, íþróttakeppnir (rúsínuspítingur og 90° við vegginn) og föndur.

Í hádegismat var boðið uppá pulsupasta og hvítlauksbrauð.  Í morgun- og hádegismat voru foringjar með leikatriði í matartímanum úr sögunni um Galdrakallinn í Oz.

Útivera dagsins var Flóttinn úr Oz, sem er stórskemmtilegur leikur sem felst í að vonda nornin úr vestri hefur náð öllum karakterum sögunnar á sitt band og þau eru hægt og rólega að verða vond og græn eins og hún. Nornin var staðsett í „fangelsinu“ þar sem stúlkurnar fóru í leiknum ef Dóróthea, Álmaðurinn, Fuglahræðan eða aðrar furðuverur náðu þeim á hlaupum. Inni í skógi reyndu stúlkurnar að finna Glindu (góðu nornina) og ljónið til að klára ákveðnar þrautir. Allir skemmtu sér konunglega og allir náðu klárlega skrefum dagsins í þessum leik, börn og foringjar. Í kaffinu var boðið upp á bananabrauð og kanillengjur. Eftir kaffitímann héldu brennó og íþróttir áfram. Lúsmýið hefur aðeins verið að trufla stelpurnar og margar orðnar vel útbitnar. Þær héldu sig því margar inni seinnipartinn í dag í föndri og öðru stuði.

 

Í kvöldmat var boðið uppá kjötbollur, sósu, kartöflumús og salat. Eftir kvöldmat fóru stelpurnar í spurningakeppnina Viltu vinna milljón sem allir höfðu gaman af og mikil læti voru í kvöldvökusalnum í kvöld. Eftir ávexti í kvöldkaffi fóru stelpurnar á hugleiðingu þar sem lesin var saga um þakklæti.

Allir eru orðnir spenntir fyrir morgundeginum, en þá er loksins komin veisludagur !

Minnum á að fylgjast með á instagram reikningi Vindáshlíðar og kíkja á myndir á flickr.

 

kveðja úr Hlíðinni

Marín Hrund forstöðukona