Hér að ofan má sjá mynd af kátum og glöðum göngugörpum sem fóru í gönguferð að Brúðarslæðu í gær. Þar óðu þær í læknum og skemmtu sér vel eins og þeim einum er lagið.

Síðasta heila dag sumarbúðadvalarinnar er alltaf veisla, fyrir anda, sál og líkama. Við klæðum okkur upp, förum í messu, borðum dýrindis pizzur, veitum verðlaun fyrir eitt og annað, horfum á skemmtiatriði foringja á kvöldvöku og ýmislegt fleira skemmtilegt sem stelpurnar geta sagt ykkur betur frá við heimkomu í dag.

Í dag var svo komið að einum af hápunktinum en það er þegar sigurlið brennókeppninnar fékk að spila brennóleik við foringjana. Það var einstök stemmning í húsinu meðan á þeim leik stóð og gaman að sjá hvernig allar stelpurnar studdu vinkonur sínar í Grenihlíð. Að þeim leik loknum fékk liðið sem lenti í öðru sæti svo að keppa með foringjunum á móti rest. Mikið stuð og mikið gaman.

Eftir mjög svo skemmtilega viku með stelpunum öllum er komið að lokum þessarar dvalar. Við leggjum af stað heim úr Vindáshlíð um kl. 14:00 og verðum því komnar á Holtaveginn upp úr kl. 14:30.

Við þökkum fyrir samveruna og hlökkum til að sjá sem flestar aftur að ári.

Kær kveðja,
Álfheiður forstöðukona og foringjarnir allir