Í gær vöknuðu stelpurnar við jólatónlist og búið var að skreyta setustofuna og matsalinn með jólaseríum, skrauti og meira að segja búið að skreyta jólatré. Jólin voru haldin hátíðleg allan daginn með viðeigandi jólatónlist, atriðum og skemmtilegheitum. Á biblíulestri var leikinn helgileikur þar sem foringjarnir brugðu sér í ýmis hlutverk og meira að segja nokkrar stúlkur úr flokknum voru fengnar til að aðstoða við að leika kindur. Í útiveru var gengið niður í réttir og farið í leiki þar, mjög hressandi útivist og komu stelpurnar svangar til baka og fengu sér ljómandi gott bakkelsi. Um kvöldið var jólabíó, hugleiðing úti í kirkju og að lokum kaffihúsakvöld inni í matsal þar sem þær fengu eplacrumble og kakó með rjóma. Stúlkurnar sofnuðu sáttar og sælar eftir langan jóladag, spenntar fyrir ævintýrum morgundagsins.
Jólakveðjur, Ásta og Pálína forstöðukonur.