Það er hefð í Vindáshlíð að allar stúlkur sem gista í 3 nætur eða meira í Vindáshlíð þá verða þær Hlíðarmeyjar og í tilefni þess fengu þær óvæntan glaðning eftir hollan morgunmat – coco puffs, það vakti alveg gífurlega lukku.

Eftir morgunmat var Biblíulestur þar sem við fórum soldið yfir það hvað þær væru búnar að læra í Vindáshlíð, það stóð ekki á svörunum og meðal annars var nefnd:

Við erum búnar að læra meira um Guð og Jesú. Við erum búnar að læra að við eigum að bera virðingu fyrir öðrum og taka tillit, erum búnar að læra meira að biðja bænir og að við getum treyst Guði, við erum búnar að læra hvað hver og ein er einstök og hæfileikarík og við eigum að vera ánægðar með það og okkur sjálfar. Við erum búnar að læra brennó, að gera vinabönd, og svo margt margt fleira.

Í dag er Veisludagur og sólin skín svo fallega og skært. Við erum búnar að vera mjög blessaðar með veðrið þennan flokk í Hlíðinni 🙂 Á Veisludegi er margt skemmtilegt gert, íþróttakeppnin heldur áfram, undanúrslit í Brennó, hárgreiðslusýning, og í kvöld verður Veislukvöldverður þar sem að stelpurnar fara í fínu fötin sín og foringjarnar/bænakonurnar verða búnar að skreyta matsalinn fallega og hvert og eitt herbergi fær að sitja með bænakonunni sinni á borði. Þetta er ávallt mjög skemmtileg stund.

Með kveðju

Signý Gyða Pétursdóttir

Forstöðukona í 1. flokki Vindáshlíð 2015