Í Vindáshlíð er lögð mikil áhersla á að öllum líði vel og njóti dvalarinnar. Hér fara nokkrir hlutir sem gott er að hafa í huga til að undirbúa sig fyrir dvöl í Vindáshlíð.
- Farangur: Útivistarfatnaður, íþróttafatnaður, daglegur fatnaður, veislufatnaður, náttföt, sæng/svefnpoki, lak, snyrtivörur, handklæði.
- Gott er að merkja allan farangur skilmerkilega.
- Athugið að ekki er leyfilegt að hafa síma eða sælgæti með í för.
- Athugið að föt og aðrar eigur þátttakenda eru á eigin ábyrgð.
- Óskilamunir eru sendir á skrifstofu KFUM og KFUK að Holtavegi 28 eftir hvern flokk. Í lok sumars áskila sumarbúðirnar sér rétt á að ráðstafa ósóttum óskilamunum.
- Brottför og heimkoma: Rútur fara frá húsi KFUM og KFUK að Holtavegi 28 klukkan 9:00 að morgni brottfaradags og koma til baka á sama stað klukkan 15:00 á komudegi.
- Forstöðukona hvers flokks er til staðar við brottför til að taka við lyfjum eða eiga umræður við foreldra áður en haldið er af stað.
- Gjald fyrir rútur greiðist utan við dvalargjald, en mælt er með því að öll börn komi og fari með rútu. Eigi að skutla börnum eða sækja þau þarf að tilkynna um það. Í þeim tilfellum eru börnin velkomin í Vindáshlíð frá klukkan 10:00 á komudegi og skulu sótt fyrir klukkan 14:00 á brottfarardegi.
Vegna Covid19 er öll gestakoma í sumarbúðirnar takmörkuð sumarið 2021 og því viljum við biðla til foreldra eða fylgdarfólks að koma ekki inn í húsið eða dvelja á staðnum lengur en nauðsynlegt er. Við þökkum ykkur fyrir að sýna þessu skilning.
- Veikindi, ofnæmi, óþol: Tilkynna skal um veikindi, ofnæmi eða óþol að minnst kosti 7 dögum áður en barn mætir í Vindáshlíð. Barni skal fylgja skriflegar leiðbeiningar um lyfjaskammta eða sérstakan stuðning sem barnið kann að þurfa. Auk þess skal slíkt tilkynnt til forstöðukonu við brottför, en fyrr ef gera þarf sérstakar ráðstafanir til að tryggja öryggi og velferð barnsins.
- Samskipti á meðan á dvöl stendur:
- Símatími forstöðukonu er á milli klukkan 11:30 og 12:00 alla daga. Á þeim tíma geta foreldrar/forsjáraðilar hringt og spurst fyrir um barnið sitt. Símanúmerið er 566-7044.
- Reglulega eru skrifaðar fréttir af flokknum á heimasíðuna vindashlid.is, en þar er einnig hægt að nálgast myndir af hverjum degi. Þið getið einnig fundið okkur á Instagram.
- Ekki er heimilt að heimsækja börnin á meðan á dvöl þeirra stendur.
- Varningur: Hægt er að festa kaup á varningi merktum Vindáshlíð við brottför eða heimkomu, eða á öðrum opnunartíma skrifstofu KFUM og KFUK á Holtavegi 28. Brot af varningnum er einnig til sölu í Vindáshlíð, auk þess sem hægt er að kaupa póstkort og frímerki ef börnin vilja senda fréttir heim. Ekki er önnur ástæða fyrir börnin að hafa pening með í för í sumarbúðirnar. Í sumar verður hægt að kaupa eftirfarandi varning: ?
- Lúsmý: Vakin er athygli á því að lúsmýið hefur uppgötvað paradísina sem Vindáshlíð er, og er gjarnt á að heimsækja okkur á sumrin þrátt fyrir alls kyns tilraunir til að sporna við því. Ef börn eru sérstaklega viðkvæm skal gera ráðstafanir eins og hægt er.
Við minnum á skilmála vegna skráninga í dvalarflokka sumarbúðanna, en þar er að finna svör við mörgum algengum spurningum: https://www.kfum.is/sumarstarf/skilmalar-vegna-netskraningar/
Öllum sem koma að rekstri sumarbúðanna er annt um það að börnin sem til okkar komi njóti dvalarinnar. Réttur og velferð hvers barns sem dvelur í Vindáshlíð stendur framar öllu öðru og leggjum við mikinn metnað í að tryggja barninu þínu jákvæða og góða upplifun.
Sökum Covid gætu aðstæður breyst með stuttum fyrirvara svo við biðjum foreldra/forsjáraðila um að fylgjast vel með tölvupóstinum sínum dagana fyrir flokkinn.
Takk fyrir traustið sem þú hefur sýnt okkur með því að treysta okkur fyrir barninu þínu.
Virðingarfyllst,
Stjórn og starfsfólk Vindáshlíðar