Úr bókinni “Hér andar Guðs blær”, texti e. Guðrúnu Eddu Gunnarsdóttur

Í Vindáshlíð stendur kirkja og ber hæst af húsunum á staðnum. Þessi kirkja er gamla kirkjan sem var í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Hún var flutt þaðan í Vindáshlíð í Kjós um haustið 1957. Kirkja þessi hafði verið guðshús Saurbæjarsóknar á Hvalfjarðarströnd frá árinu 1878, en er ný kirkja hafði verið byggð og vígð í Saurbæ sumarið 1957, var ástæða til þess að gamla kirkjan yrði fjarlægð.

Hugmyndin um að flytja kirkjuna frá Saurbæ í Vindáshlíð til þess að hún mætti áfram þjóna hlutverki sínu sem guðshús en nú í sumarbúðum KFUK, hafði vaknað í huga Guðlaugs Þorlákssonar skrifstofustjóra, meðan á byggingu nýju kirkjunnar í Saurbæ stóð. Draumur um kirkju eða kapellu í Vindáshlíð hafði reyndar verið lengi til í hugum bæði hans og margra annarra, en sá draumur var býsna fjarlægur vegna þess að fjármagn skorti til byggingaframkvæmda.

Tveimur árum áður en nýja kirkjan var vígð leitaði Guðlaugur Þorláksson á fund prófastsins og sóknarprestsins í Saurbæ, séra Sigurjóns Guðjónssonar og kom hugmyndinni og beiði um gömlu kirkjuna á framfæri. Tók hann henni vel og kom þessari málaleitan til skila við sóknarnefndina, sem samþykkti beiðnina. Í miklu hvassviðri í febrúar 1957 færðist kirkjan til á grunni sínum. Þá hringdi sr. Sigurjón Guðjónsson, prófastur í Saurbæ, í Guðlaug Þorláksson og sagði við hann: “Nú er kirkjan lögð af stað í Vindáshlíð.” Endanlegt leyfi til kirkjuflutningsins kom eftir kirkjuvígsluna í Saurbæ sumarið 1957, þegar sóknarnefnd Hallgrímskirkju í Saurbæ afhenti sumarstarfi KFUK gömlu kirkjuna til eignar án endurgjalds og var því heimilt að flytja hana í Vindáshlíð.

Gamla kirkjan í Saurbæ var lítið guðshús, 48m2, byggt 1878 og tók 60 manns í sæti. Við skoðun kom í ljós, að kirkjan var sterklega byggð úr góðum, ófúnum viðum og talið óhætt að flytja hana í heilu lagi frá Saurbæ í Vindáshlíð.

Mikinn undirbúning þurfti fyrir flutningunum enda voru slíkir húsaflutningar fátíðir á þeim tímum. Vegi og brýr þurfti að mæla, kanna síma og rafmagnslínustæði, breikka vegarstæðið upp í Vindáshlíð og byggja grunn fyrir kirkjuna þar. Alls staðar virtist hægt að leysa vandkvæðin, nema á einum stað í Hvalfirði. Það var augljóst, að erfitt yrði að flytja kirkjuna yfir gömlu brúna á Fossá, þar sem bæði var bratt og þröngt. En í ljós kom að það átti að opna nýjan vegarkafla í september 1957 fyrir neðan Fossá og var hægt að fara hann.

Guðlaugur Þorláksson gekk í undirbúningsstörfin af miklum krafti og fékk marga til liðs við sig en aðallega Guðlaug Jakobsson verkstjóra hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Guðlaugur Þorláksson bað um leyfi bæjarráðs til að fá lánuð tæki og vélar til kirkjuflutningsins. Þeirri bón var vel tekið og öll tæki, bílar og menn fengust frá Rafmagnsveitur Reykjavíkur fyrir milligöngu Guðlaugs Jakobssonar. Þá þurfti leyfi hjá vegamálastjóra til að fá að fara um þjóðveginn með kirkjuflutninginn og var það auðsótt, símamenn urðu að ver viðlátnir til að taka niður eða lyfta símalínum og loks þurfti löggæslu. Öðrum undirbúningi varð einnig að vera lokið. Grunnurinn fyrir kirkjuna var að vera tilbúinn og ljúka þurfti við að breikka veginn upp í Vindáshlíð.

Þegar öllu þessu var lokið, var ákveðið að flytja kirkjuna frá Saurbæ í Vindáshlíð mánudaginn 23. september. Þann dag fór hópur manna úr Reykjavík upp að Saurbæ undir stjórn Þórarins Pjeturs hjá Rafveitunni með kranabíla, dráttarbíl, flutningsvagn og ýmislegt annað til þess að flytja kirkjuna. Kranabílarnir lyftu kirkjunni af grunni sínum og vagninum, sem skyldi flytja hana á ákvörðunarstað, var skotið undir og var hún fest vel niður á hann. Seinni hluta dags var haldið af stað og var leiðangurinn kominn nokkra kílómetra áleiðis þá um kvöldið, þegar dimmt var orðið og ákveðið að bíða til morguns með að halda áfram með kirkjuna.

Ferðinni miðaði seint, það þurfti víða að lyfta upp eða taka niður raflínur og símalínur, auk þess varð að fara varlega í brekkum og beygjum, sem nóg var f á leiðinni fyrir Hvalfjörð á þessum tíma. Undir kvöld þann 24. september var komið upp í Vindáshlíð með þennan einstaka flutning og lokaáfanganum náð klukkan átta um kvöldið, þegar lokið var við að koma kirkjunni á grunninn, sem Sigurður Guðmundsson, trésmiður, hafði haft umsjón með að byggja. Kirkjunni hafði verið valinn staður uppi á flötinni þar sem hæst ber í Vindáshlíð og ekkert skyggir á hana.

Það ríkti mikil gleði meðal þeirra, sem unnu við að flytja kirkjuna, þegar hún var komin á sinn stað. Mennirnir höfðu lagt mikið á sig og ekki fengist til að fara frá í mat meðan á verkinu stóð, heldur var þeim færður matur. Auk starfsmanna Rafveitunnar og símamanna, unnu sjálfboðaliðar úr KFUK og M að verkinu og mun á engan hallað þótt nafn Guðlaug Jakobssonar verkstjóra sé hér eitt nefnt úr hópi sjálfboðaliða.

Kirkjan komst heil á ákvörðunarstað. Það brotnaði ekki einu sinni glerrúða á leiðinni.

Til þess að hægt væri að fara að nota kirkjuna, varð að endurbæta hana og tæpum tveimur árum síðar var hafist handa. Aðalsteinn Thorarensen, húsgagnasmiður, var fenginn til að annast það verk ásamt félögum sínum Magnúsi Jónssyni og Ægi Vigfússyni húsgagnasmiðum. Kirkjan var stækkuð með viðbyggingu við Kórgafl, en hélst að öðru leiti óbreytt að utan. Að innan var hún öll einangruð og þiljuð. Smíðaðir voru nýir bekkir, prédikunarstóll og altari og settar nýjar umgerðir um gluggana og eru allar innréttingar unnar í oddboga stíl samkvæmt teikningum Aðalsteins Thorarensen. Rafmagn var lagt í kirkjuna til ljósa og annaðist það verk Magnús Oddsson, rafvirki. Rafmagnskynding var loks sett í kirkjuna sumarið 1992.

Öllum undirbúningi varð að vera lokið fyrir endurvígslu kirkjunnar, sem ákveðin var 16. ágúst 1959.

Kirkjan eignaðist marga góða gripi og eru þeirra helstir:

 • Kirkjuklukka, smíðuð í Stálsmiðjunni hf. í Reykjavík. Hlíðarstjórn samþykkti á stjórnarfundi 18. apríl 1959, að áletrunin á kirkjuklukkuna skyldi vera svohljóðandi: Hallgrímskirkja í Vindáshlíð 24. september 1957.
 • Tveir altarisstjakar úr silfri sem vígslubiskupshjónin frú Áslaug Ágústsdóttir, formaður KFUK, og séra Bjarni Jónsson, formaður KFUM, gáfu kirkjunni.
 • Kaleikur, patína, vínkanna, 35 sérbikarar og brauðöskjur, gefið til minningar um Þóreyju Magnúsdóttur, sem hafði verið varaformaður í Hlíðarstjórn.
 • Tveir tveggja arma silfurkertastjakar sem stjórn sumarstarfs KFUK gaf til minningar um Þóreyju Magnúsdóttur.
 • Harmóníum, kóralbók, messusöngvar og fimmtíu sálmabækur sem hjónin Camilla Sandholt og Guðlaugur Þorláksson gáfu.
 • Kristsstyttu (eftirlíkingu af höggmynd Thorvaldsen) til að hafa í stað altaristöflu, gáfu dætur þeirra, þær Jenný Stefanía, Katrín Þorbjörg og Hildur Björg, ennfremur rautt altarisklæði með gylltum krossi, samstæðan hökul og rykkilín.
 • Tvær Biblíur og útskorið skrín fyrir mannakorn, gaf Pétur, sonur Camillu og Guðlaugs.
 • Allir lampar í kirkjunni voru gefnir til minningar um Guðrúnu Jónsdóttur.
 • Altarisdúk með heklaðri blúndu vann og gaf Katrín G.S. Jónsdóttir. Nákvæma eftirlíkingu vann Klara V. Þórhallsdóttir árið 1996.
 • Kristalsmun með innfelldum krossi og kaleik gaf Helga Magnúsdóttir.
 • Tveir kristalsblómavasar bárust frá ónefndum gefanda.
 • Síðar bárust sálmabækur gefnar af Gísla Sigurbjörnssyni á Grund.

Kirkjuvígsludagurinn 16. ágúst var mikill hátíðisdagur í Vindáshlíð. Séra Bjarni Jónsson, vígslubiskup, annaðist vígsluna og hófst athöfnin klukkan þrjú með skrúðgöngu frá skálanum að kirkjunni. Í henni voru, auk séra Bjarna, herra Sigurbjörn Einarsson, biskup Íslands, og dr. Ásmundur Guðmundsson, fyrrv. biskup Íslands. Auk þeirra voru sex prestar, stjórn KFUK, Hlíðarstjórn og starfsstúlkur Vindáshlíðar. Mikill mannfjöldi, um fimmhundruð manns, var samankominn í Vindáshlíð og ekki komst nema lítið brot fyrir inni í kirkjunni en hátölurum hafði verið komið fyrir utandyra og inni í skálanum svo að allir gætu fylgst með athöfninni.

Inni í kirkjunni tók vígslubiskup við kirkjugripunum og setti á altarið. Vígslan hófst með því að Gústaf Jóhannesson lék á orgelið. Blandaður kór KFUM og K annaðist söng. Séra Bjarni hélt vígsluræðu og ritningarlestra lásu þeir séra Friðrik Friðriksson, sér Kristján Bjarnason, þáverandi sóknarprestur að Reynivöllum í Kjós, séra Magnús Guðmundsson í Ólafsvík og séra Sigurjón Þ. Árnason, prestur í Hallgrímskirkju í Reykjavík. Að því loknu vígði séra Bjarni Hallgrímskirkju í Vindáshlíð og afhenti hana sumarstarfi KFUK. Þá prédikaði séra Sigurjón Guðjónsson prófastur og athöfnin endaði á því, að séra Magnús Runólfsson, framkvæmdastjóri KFUM og K í Reykjavík, tónaði bæn og blessunarorð.

Að vígsluathöfninni lokinni var set að kaffiborði og tóku þar margir til máls, séra Bjarni Jónsson, dr. Ásmundur Guðmundsson, frú Áslaug Ágústsdóttir, Guðlaugur Þorláksson, skrifstofustjóri og Helga Magnúsdóttir, kennari.

Þeim sem þarna voru viðstaddir er þessi hátíðisdagur mjög minnisstæður.

Síðan kirkjan var vígð, hefur hún verið notuð í starfi því sem fram fer í Vindáshlíð. Einu sinni í viku í hverjum flokk yfir sumarið eru haldnar guðsþjónustur fyrir telpurnar sem dvelja þar og á seinni árum er æ meira um það, að þær taki þátt í því ásamt starfsfólkinu að undirbúa guðsþjónustuna, með því að skreyta kirkjuna, lesa ritningarlestra, leika helgileiki, æfa söng, biðja bænir og gera ýmislegt fleira, sem tengist guðsþjónustuhaldinu. Kirkjan er líka oft notuð við morgunbænir og biblíufræðslu telpnanna og hún er einnig mikið notuð fyrir ýmsar bænastundir, sambænastundir starfsfólksins og bænastundir í unglinga- og kvennaflokkum.

Sumarstarfið hefst hvert vor með messu í Hallgrímskirkju og kaffisölu sem mikill fjöldi fólks sækir. Hófst sá siður 1976. Formlegu sumarstarfi lýkur með messu og altarisgöngu í kvennaflokki í ágústlok. Varla er svo haldið mót eða fundur í Vindáshlíð, að ekki sé kirkjan notuð til guðsþjónustuhalds og eiga margir minningar um ógleymanlegar blessunarstundir úr kirkjunni í Vindáshlíð þar sem Guðs orð hefur hljómað og fest rætur í hjörtunum.