Við komuna í Hlíðina fóru stúlkurnar beint í matsalinn þar sem forstöðukona fór yfir reglur Vindáshlíðar og starfsmenn kynntu sig. Að því loknu var raðað á herbergin og foringjarnir fóru svo með stúlkurnar um staðinn og kynntu þeim öryggisreglur og fleira nytsamlegt.

Eftir léttan hádegismat var farið í svokallaðan Útilegumannaleik sem féll vel í kramið og eftir kaffi þar sem stúlkurnar gæddu sér á krydd- og kókoskökum var Brennókeppni vikunnar sett í gang. Einnig voru stundaðar íþróttir auk þess sem einhverjar stúlkur hnýttu vinabönd í setustofunni.

Í kvöldmat var boðið upp á hakk og spagettí sem rann ljúflega niður og síðan var frjáls tíma fram að kvöldvöku. Á kvöldvökunni var farið út í margskonar „sameiningarleiki“ fram að kvöldkaffi, en að því loknu áttum við rólega stund saman í setustofunni þar sem sungnir voru nokkrir söngvar og hlýtt á hugleiðingu.

Stúlkurnar fengu að fara niður að læk til að bursta tennurnar sem margar nýttu sér og síðan var „bænakonuleit“. Herbergin þurftu s.s. að finna sína bænakonu út frá þremur atriðum sem þau fengu að vita um hana. Hvert herbergi mátti senda tvo fulltrúa í einu inn á setustofu til bænakvennanna og velja eina til að spyrja sinna spurninga. Ef hún svaraði spurningu þeirra neitandi, þurftu þær að fara aftur inn á herbergið sitt, og senda næstu tvær fram og svo koll af kolli. Ef hins vegar bænakonan svarið spurningu þeirra játandi, máttu þær spyrja hana næstu spurningar og ef öllum þremur spurningum þeirra var svarað játandi voru þær búnar að finna bænakonuna sína og gátu „teymt“ hana með sér fram. Þetta tók góðan tíma og það tók einnig góðan tíma að koma mörgum herbergjum í ró, enda spenningurinn búin að vera mikill.

Við erum sammála um að mjög góður andi sé í hópnum og að í honum séu einstaklega vandaðar og flottar stúlkur. Forstöðukona heimsótti öll herbergin seinni part dagsins og hver einasta stúlka var yfir sig ánægð með daginn og algengur frasi var að það væri búið að vera „ógesslega gaman“. Þannig að við horfum fram á skemmtilega og viðburðaríka viku með ótrúlega flottum stúlknahópi.

Því miður hafa tæknilegir örðugleikar  verið að stríða okkur þannig að okkur hefur ekki enn tekist að setja inn myndir, en þær koma þó væntanlega áður en langt um líður.