Stúlkurnar voru vaktar kl. 8:30 í morgun og að loknum morgunverði og fánahyllingu var Biblíulestur sem fjallaði um hversu dýrmæt hver og ein þeirra er í augum Guðs og í því samhengi lásum við Sálm 139 vers 1 – 6 og 13 – 16. Að Biblíulestri loknum hélt Brennókeppni herbergjanna áfram, ásamt íþróttakeppnum og frjálsum tíma.

Það var grjónagrautur í matinn í hádeginu sem er alltaf jafn vinsæll og að honum loknum héldum við brunaæfingu. Hún hefði mátt ganga betur því það tók 4 mínútur áður en allar stúlkurnar voru komnar út sem er aðeins of langur tími. En þær eru a.m.k. búnar að prófa þetta og myndu áreiðanlega flýta sér meira ef alvara væri á ferðum.

Klukkann tvö gengum við að Brúðarslæðu sem er foss sem rennur hér skammt frá. Þarna er hægt að vaða og þær skemmtu sér vel við það þar til tími var komin til að halda til baka í kaffi.

Að kaffitíma loknum var hefðbundin dagskrá með brennó, íþróttum og verkefnum sem tilheyra setustofu.

Í kvöldmatnum komu foringjar stúlkunum á óvart með því að dansa fyrir þær skemmtilegan dans og klukkan 20 mættu stúlkurnar svo í setustofuna og þar hófst Hermannaleikurinn. Það má segja að Hermannaleikurinn sé eltingaleikur með boðskap því honum er ætlað að fá stúlkurnar til að setja í sig í spor fólks sem annaðhvort er á flótta og eða býr við stríðsástand og ógn, og í upphafi leiks er þeim er sögð dæmigerð saga 12 ára stúlku sem býr við svona ástand af „henni sjálfri“. Í leiknum eru foringjarnir svo í hlutverki hermanna sem eru komnir til að hertaka stúlkurnar, ógna þeim, og skelfa. Foringjarnir taka þessu hlutverki sínu mjög alvarlega, þær eru klæddar í hermannaföt, með „stríðsmálningu“ og elta fólk upp og gefa þeim alls konar skipanir hægri vinstri, á meðan þær leiða „fangana“ í fangelsið. Í fangelsinu tók svo við þeim mjög harður og miskunnarlaus vörður sem í sífellu krafðist alls konar hluta af þeim, eins og t.d. að þær færu með stafrófið án allra sérhljóða eða jafnvel afturábak, sagði þeim að leika bacon eða fisk á þurru landi, eða jafnvel syngja þjóðsönginn. Hugmyndaflugi þessa fangavarðar voru lítil takmörk sett.

Æsingurinn í leiknum er töluverður og þegar hermennirnir birtust á gluggunum í setustofunni í upphafi leiks, þannig að stúlkurnar þurftu að flýja út eins hratt og þær gátu, lék allt á reiðskjálfi af hrópum, öskrum, og köllum. Þó skilaboðin séu alvarleg er gamanið í fyrirrúmi og þær stelpur sem áður hafa komið í ævintýraflokk í Vindáshlíð hafa stöðuglega spurt eftir þessum leik þessa tvo daga sem liðnir eru.

Að Hermannaleiknum loknum var svo smá kvölhressing og í framhaldinu var kvöldstund með hugleiðingu þar sem fjallað var um söguna um Sakkeus. Að loknum frjálsum tíma og tannburstun úti í læk, fóru bænakonur inn á sín herbergi og enduðu þannig góðan og spennandi dag með stúlkunum.

Því miður hefur okkur enn þá tekist að setja inn myndir þó mikið hafi verið reynt til þess. Við héldum að það hefði tekist núna áðan en þær virðast samt ekki hafa skilað sér þannig að við reynum aftur þegar tími gefst eftir hádegið.