Nú er þessi vika liðin og úrslit í öllum keppnum urðu kunn í gær. Að loknum morgunverði og Biblíulestri, var leikið til úrslita í brennókeppninni.

Að loknum hádegisverði fengum við mjög góðan gest. Hingað kom töframaðurinn Einar einstaki og skemmti stúlkunum með ótrúlegum og skemmtilegum atriðum. Auk þess var Einar svo örlátur að hann gaf hverri og einni þeirra DVD disk með sér að kenna töfrabrögð. Mjög fallega gert af honum.

Eftir kaffi var svokallaður Vinagangur, en á honum opna allar stelpurnar upp herbergin sín og bjóða gestum sínum upp á eitthvað sérstakt. M.a. var boðið upp á grafíska stafi, naglalökkun, nudd, og að teiknuð væri af manni mynd. Auk þess var í gangi hárgreiðslukeppni, þar sem sumar lögðu áherslu á frumleikann á meðan aðrar voru með útlit greiðslunnar í fyrirrúmi.

Síðan hófst veislukvöldið þar sem búið var að dekka salinn fallega upp með kertum á borðum og bleikum servéttum og þangað mættu allar stúlkurnar í sínu fínasta pússi og gæddu sér á ljúffengri pizzu og foringjarnir þjónuðu þeim til borðs.

Í matnum voru afhent verðlaun fyrir Brennóið auk þess sem úrslit í hinum ýmsu íþróttakeppnum voru tilkynnt eins og t.d. fyrir lengsta stokkið, lengsta húllið, og lengsta plankið, og breiðasta brosið. Að sjálfsögðu voru afhent verðlaun fyrir allt þetta og að lokum var íþróttdrottning Vindáshlíðar krýnd.

Að þessu loknu hófst skemmtun á sal, þar sem foringjarnir sýndu algjöra snilldartakta í hverju atriðininu á fætur öðru við mikin fögnuð stúlknanna.

Að skemmtuninni lokinni var smá róleg stund og hugvekja í setustofunni þar sem allar fengu ís, en þá var kominn tími á tannburstun og tilheyrandi og kvöldið endaði svo með loka heimsókn bænakvennanna inn á herbergin. Ró var komin á upp úr kl.1 eftir miðnættið.

Svo er bara frágangur og brennókeppni foringja áður en haldið er heim á leið síðar í dag.

Við í Vindáshlíð viljum þakka öllum stúlkunum fyrir frábæra viku og hlökkum til að sjá þær aftur í Hlíðinni.