Full rúta af stúlkum renndi í hlaðið í Vindáshlíð í morgun. Margar stúlkurnar voru að koma á staðinn í fyrsta skiptið, sumar hafa komið áður.

Við kynntumst staðnum með því að fara í ratleik eftir hádegismat. Stúlkurnar lögðu mikinn metnað í að leysa þrautirnar sem fyrir voru lagðar og mátti t.a.m. greina mikla hæfileika í setustofunni þegar háklassa íslenskt rapp ómaði þaðan með reglulegu millibili.

Eftir kaffi var boðið upp á fjölbreytta skapandi hópa. Matarlist, leiklist og útsaumur skiptu þorra stúlknanna jafnt á milli sín meðan eingöngu 2 stúlkur völdu lagasmíði og 1 valdi dans. Danshópurinn var lagður niður og sömuleiðis kórinn – það vildi engin fara í kór.

Stúlkurnar í lagasmíðinni fengu gott svigrúm til að skapa og njóta sín, stúlkurnar í útsaumnum voru eins og klipptar út úr mynd af baðstofulofti 1820 þar sem þær sátu iðnar við krossaum og lykkjuspor. Leiklistarhópurinn lék skemmtilega leiki og gerði æfingar, á meðan matarlistarhópurinn málaði skyrið hinum ýmsu fallegu pastellitum, litaði kókosmjöl til skreytinga, tíndi blóm til að hafa á borðum og galdraði fram girnilegt smurbrauð – vafalaust það fallegasta sem sést hefur á borðum Vindáshlíðar.

Hópurinn er einstaklega prúður og ljúfur, einhver merki þreytu eftir Verslunarmannahelgina hafa látið á sér kræla og höfum við velt því fyrir okkur hvort það eigi sinn þátt í hinu prúða háttarlagi…

Þetta er flottur hópur, við hlökkum til næstu daga með þeim!

P.s. Því miður voru örlítil vandræði með myndavélina svo það voru ekki teknar margar myndir, unnið er að því að koma því í lag.