Í morgun voru stúlkurnar vaktar kl. 08:00. Dagurinn hófst með morgunverði, fánahyllingu og tannburstun og svo morgunstund. Á morgunstundinni ræddum við mismunandi styrkleika – hvað veröldin væri litlaus ef allir væru eins. Við stimpluðum fingraförin okkar á lítinn kross úr pappír sem við hengdum upp inni í kvöldvökusal, sungum og báðum til Guðs.

Í hádegismat fengum við gómsætan fiskrétt með karrý, osti og hrísgrjónum sem sló heldur betur í gegn.

Við gengum niður í réttir og þar voru stúlkurnar dregnar í dilka við mikla gleði og kátínu. Þegar heim kom beið súkkulaðikaka og kryddbrauð á borðum sem var sporðrennt niður með ískaldri mjólk.

Eftir kaffi fengu stúlkurnar aftur að velja sér hópa. Að þessu sinni reið matarlistarhópurinn feitasta hestinum með rúmlega helming stúlknanna innanborðs. Eldhússtúlkurnar höfðu græjað fyrir okkur fullt af gerdeigi sem mótað var í hin ýmsu form og skreytt með sesamfræjum, lituðu kókosmjöli, osti, súkkulaðispæni, skinku, matarlit og fleiru.

Myndlistarhópurinn fór í listaherbergið okkar í íþróttahúsinu og þó nokkrar soguðust heldur að fótboltaspilinu fyrir framan þá voru aðrar sem sökktu sér í málninguna og töfruðu fram falleg listaverk. Spunaleikir og rythmi skemmtu sér konunglega í kvöldvökusalnum og útsaumur hafði það notalegt í setustofunni.

Í kvöldmat var boðið upp á rjómalagaða blómkálssúpu og afrakstur matarlistarhópsins – sem að sjálfsögðu sló í gegn!

Kvöldvakan var heldur löng og afskaplega skemmtileg, svo skemmtileg að það voru allir búnir að hita vel upp fyrir náttfatapartýið sem foringjar boðuðu til með pottlokum og söng þegar allar voru komnar inn á herbergi og héldu að þær ættu að fara að sofa.

Í náttfatapartýinu var dansað uppi á borðum í matsalnum, sprellað í setustofunni með allskonar leikjum og hreyfisöngvum og borðaður ís. One Direction voru eitthvað að væflast fyrir utan og kíktu á okkur (mig grunar reyndar að þeir hafi ekki verið ekta…. ) Gleðin var allsráðandi þessa kvöldstund og voru það sælar stúlkur sem lögðust örmagna á koddann rétt fyrir miðnætti og sváfu vært alla nóttina.