Hlíðarmeyjar vöknuðu kl. 9:00 í morgun. Hver sú stúlka sem gist hefur 3 nætur samfleytt í Vindáshlíð má kalla sig Hlíðarmey. Um hálfur flokkurinn öðlaðist þá nafnbót í morgun (hinar höfðu náð henni áður) og til að fagna var Cocoa Puffs skellt á borðin með morgunmatnum. Með fullan maga af morgunkorni sátu stúlkurnar prúðar á morgunstund þar sem við ræddum bænina, frið og ófrið í hjartanu.

Úrslitaleikurinn í brennó fór fram í dag og var það Skógarhlíð sem fór með sigur af hólmi. Þær fá að keppa við foringjana á morgun.

Í hádegismat fengum við hamborgara. Þeir slógu í gegn.

Eftir hádegið fengu stúlkurnar að velja á milli þess að klífa Sandfellið hið mikla í hetjugöngu eða fara í létta gönguferð um skóginn með leikjapásum. 2/3 stúlknanna völdu Sandfell og sigruðu það með glæsibrag. Allir þátttakendur í báðum gönguferðum fengu góða útrás og skemmtu sér vel.

Í kaffitímann fengum við jógúrtköku og nýbakaðar súkkulaðibitasmákökur með mjólk… það gerist varla betra!

Eftir kaffi röðuðu stúlkurnar áleggi á pizzabotnana sína. Sjá má myndir af listaverkunum á netinu en ég leyfi mér að fullyrða að aldrei hafi jafn mikið verið nostrað við pizzur í Vindáshlíð og núna.

Boðið var upp á „Vinagöngu“ en þá eru öll herbergin opin og hvatt til innlits. Í boði var m.a. að fá hárgreiðslu, nudd, naglalakk, skoða tímarit, spila, fá augnskugga og spjalla. Mjög gaman var að rölta á milli og taka þátt.

Tekið var á móti framlögum í hárgreiðslukeppni en þátttaka var heldur dræm.

Þegar allir höfðu prúðbúið sig var fáninn dreginn niður og við sungum „Vefa mjúka“ með tilheyrandi umstangi í kjölfarið. Hvert herbergi sat fyrir á myndatöku og svo hófst veislan.

Loksins voru pizzurnar etnar! Brjóstsykurinn sem við gerðum í gær var borinn fram í eftirrétt og þegar allir höfðu borðað fylli sína hófst allrosaleg kvöldvaka. Foringjar spiluðu út sínum stóru trompum í leikritum og trylltu salinn – sem launaði til baka með hlátrarsköllum.

Dagurinn endaði með notalegri stund í setustofunni þar sem stúlkurnar snæddu frostpinna og hlýddu á hugljúfa hugvekju í boði Heklu Sóleyjar foringja og sungu kvöldsönginn.

Bænakonur tóku góðan tíma inni á herbergjum og vænti ég þess að örþreyttar stúlkurnar sofni innan skamms. Dagurinn heppnaðist vel og mikil gleði var ríkjandi.