Í morgun voru allar stúlkurnar vaktar kl. 9 og dagurinn byrjaði eins og vanalega á morgunmat, fánahyllingu, morgunstund og brennó. Í hádegismat fengum við kjötbollur og kartöflur með sósu og sultu og féll það vel í kramið. Farið var í göngu að fossinum Brúðarslæðu. Stúlkurnar fengu að vera í sundfötum innan klæða og tóku með sér handklæði. Þær óðu og busluðu í litlu ánni sem brúðarslæðan rennur í og skemmtu sér vel.
Í kaffitímann fengum við norska teköku og bananabrauð.
Eftir kaffi tóku við skapandi smiðjurnar. Að þessu sinni fengu stúlkurnar ekki að velja heldur settum við upp hringekju sem 2-3 herbergi fylgdust að í. Á einni stöðinni fengu þær hver að móta sinn pizzabotn fyrir veislukvöldið (föstudagskvöldið). Ég leyfi mér að fullyrða að skrautlegri pizzabotnar hafi aldrei sést hér í Hlíðinni fögru.
Á annari stöð var brjóstsykursgerð. Nokkrar tegundir voru búnar til og er ætlunin að gæða okkur á afrakstrinum með eftirréttinum á veislukvöldinu.
Þriðja stöðin var heldur óspennandi að margra mati en það voru sturturnar. Okkur þykir ákjósanlegt að hver stúlka fari a.m.k. einu sinni í sturtu á meðan dvöl hennar stendur og best er þá að hafa sturtutíma inni í skipulaginu. Einhverjar báðust í einlægni undan því að fara í sturtu og þá tókum við mark á því en einhverjar óska eftir að fara oftar og þá tökum við einnig mark á því. En flestar fóru þær og þvoðu sér og mátti merkja ilmandi ferska sjampólykt eftir ganginum fram á kvöldmat.
Í kvöldmatinn var boðið upp á grjónagraut og lifrarpylsu.
Brennóleikir voru spilaðir eftir kvöldmat og eftir það tók við kvöldvakan sem var fulla af fjöri og skemmtun.
Gengið var til náða um kl. 22:30 og gekk stúlkunum almennt vel að sofna.