Fyrsta nóttin tókst mjög vel þrátt fyrir það að flestar stúlkurnar væru frá 8 – 10 ára og hefðu aldrei verið í Vindáshlíð áður. Þær sem ekki voru vaknaðar klukkan 9 í morgun voru ræstar þá og haldið var til morgunverðar og síðan fánahyllingar. Í heild einkenndist dagurinn í dag af mikilli hreyfingu, svo ekki sé meira sagt 😉 Eftir stuttan Biblíulestur í setustofu hófst brennókeppnin, íþróttakeppnin, og ýmsar aðrar uppákomur. Síðan var frjáls tími fram að mat þar sem stelpurnar fóru ýmist að vaða í læknum, leika í aparólunni, búa til vinabönd eða spjalla á herbergjum. Eftir matinn var haldið í göngutúr að Brúðarslæðu, fossinum okkar fallega. Þetta var tæplega tveggja tíma ferð, fram og til baka, gengin í rólegheitum, því sumir stuttir fætur urðu fljótt lúnir. Við komum til baka í nýbakaðar trakteringar sem voru borðaðar með góðri lyst. Þrátt fyrir gönguna stóðu stelpurnar sig vel í brennó og sumar gátu jafnvel hugsað sér að taka þátt í köngulóahlaupi sem stóð til boða.  Þá fóru Skógarhlíð og Furuhlíð að undirbúa skemmtiatriði kvöldvökunnar. Kvöldvakan tókst með ágætum, skemmtiatriðin kostuleg, ekki síst impromptu atriði foringjanna sem vakti mikla kátínu hjá stelpunum. Það var dansað og sungið og skemmtu allir sér konunglega. Eftir stutta hugleiðingu lögðust allir til svefns eftir annasaman dag. dagur 2