Nokkrar stúlkur vöknuðu ansi snemma í morgun og áttu erfitt með að leyfa öðrum að sofa, en það var þó bót í máli að það var vegna gleði yfir nýjum degi en ekki vegna heimþrár eða leiðinda. Eftir fánahyllinguna fórum við í kapelluna okkar, Hallgrímskirkju, heyrðum um sögu kirkjunnar og áttum góða stund saman. Morgunninn leið við leiki og íþróttir, vinabönd, kortaskrif, borðspil og annað sem stelpunum datt í hug að taka sér fyrir hendur. Í hádegismat fengum við lasagna og grænmeti sem flestar borðuðu með bestu lyst. Eftir hádegið var haldið í dularfullan rannsóknarleiðangur upp lækinn, en stelpurnar óðu upp lækinn í vaðstígvélum til að bjarga prinsessu sem haldið var fanginni af einhverjum óargadýrum efst í læknum. Þessi björgunarleiðangur tók u.þ.b. eina klst. Komið var heim í kökuveislu um kaffileytið. Eftir kaffi fóru flestar stelpnanna í sturtu eða dunduðu við ýmis konar iðju. Þær sem ætluðu að skemmta á kvöldvöku æfðu atriðin með foringja sínum. Í kvöldmatnum skófluðu stelpurnar í sig hrísgrjónagraut en rúgbrauðið var ekki alveg eins vinsælt. Kvöldvakan tókst með ágætum. Eftir hana var “surprise” náttfataparty en það virkar þannig að stelpurnar eru sendar í rúmið eins og á venjulegu kvöldi, en síðan koma allt í einu náttfataklæddir foringjar, berjandi potta og pönnur, og hópa stelpunum til baka út úr herbergjunum og inn í setustofu. Þar stýra foringjar stuttu sprelli, hlustað er á stutta sögu og síðan farið í svefninn. Nokkrum brá aðeins við þennan gauragang en við tók hlátur, grín og gaman og tókst þetta vel. Í lokin var lesin róleg saga og síðan fóru allir í bólið.