Stelpurnar sváfu lengur í morgun en vant var enda mikið fjör kvöldinu áður. Nú var runninn upp síðasti heili dagur dvalartímans. Úrslitabrennóleikurinn fór fram um morguninn og fleiri íþróttir eins og langstökk, en þær sem ekki tóku þátt í því fóru í aðra leiki í setustofu og víðar. Vindáshlíðarbolirnir sem mikið hafði verið beðið eftir komu í hús og voru allir sammála því að þeir væru vel heppnaðir og flottir. Ekki var verra að við fengum þá á gamla verðinu J Eftir hádegið fóru Ólympíuleikarnir fram og var keppt í alls konar greinum sem undirrituð kann ekki góð skil á enda ekki mikil íþróttamanneskja. Þá var komið að kaffi. Ein stúlka átti afmæli og stóð hún stolt á stól fyrir framan þær hinar í kaffitímanum á meðan afmælissöngvar voru sungnir. Súkkulaði-skúffukaka hafði verið bökuð í tilefni dagsins og fékk hún sýnishorn, skreytt íslenskum fánum og kerti sem hún blés á. Þetta var skemmtileg uppákoma. Eftir kaffi hófst fyrir alvöru undirbúningur veislukvöldsins, en það hófst kl 17.30 með hefð sem haldist hefur í Vindáshlíð líklega frá upphafi sumarstarfsins. Nokkurs konar hópdans, Vefa mjúka, dýra dúka, var dansaður og færist hann frá fánastöng að grasflöt og síðan inn í matsal þar sem veislan hefst. Salurinn var skreyttur og hátíðarpizza í boði. Foringjar sátu með sínum herbergjum og allt fór mjög hátíðlega fram. Þá voru veitt verðlaun í hinum ýmsu greinum, m.a. í broskeppninni. Nú hófst kvöldvakan en hún var í höndum foringjanna sem léku á alls oddi. Sýnd voru leikrit og dansatriði við mikinn hlátur og kátínu stelpnanna. Þá var komið að kvöldkaffi plús íspinnum/frostpinnum og síðan haldið í háttinn. Góður dagur var að kvöldi kominn.

Ásta B. Schram, forstöðukona