Það eru mikið líf og fjör í Vindáshlíð þessa dagana. Eftir hádegið í gær fóru stelpurnar í leikinn ,,Amazing Race Vindáshlíðar“. Þá var þeim skipt í hópa, þar sem herbergin kepptu sín á milli í ratleik. Stöðvarnar voru í íþróttahúsi, á fótboltavelli, við Gilsbakka og í matsal. Á hverri stöð þruftu stelpurnar að leysa margskonar þrautir s.s. leika atriði úr Lion King eða High School Musical, leysa foringjaspurningar, leggjast í lækinn, hjálpa til við þrif, finna ólíka hluti í náttúrinni, taka myndir og margt margt fleira.
Leikurinn tókst afbragðs vel og voru stelpurnar mjög glaðar.
Um kvöldið var farið í módelkeppni, þar sem hvert herbergi valdi eina stelpu til að vera módel og hinar tóku þátt í að farða og klæða skemmtilega uppá.
Stelpurnar eru yndislegar, ljúfar og fróðleiksfúsar og njóta sín í botn. Þær fóru í brennókeppni sem þær höfðu gaman af og á milli skipulagðra leika voru þær að dunda sér við að perla, gera vinabönd, fara í berjamó og njóta náttúrnnar í alls konar leikjum. Svo er eitt svo mikilvægt og það er hvernig þeim tekst að efla og mynda ný tengls við hver aðra og eignast nýjar vinkonur.
Eftir yndislega hugleiðingu um kvöldið fengu stelpurnar að bursta tennur í læknum og eftir það var farið í bænakonu leik þar sem þær þurftu að finna út hver er þeirra bænakona.
Í hverju herbergi eru tvær til þrjár bænakonur sem koma inn til stelpnanna á kvöldin og eiga með þeim notalega stund fyrir svefninn, lesa sögu úr góðri bók og biðja með þeim.
Stelpurnar sofnuðu í gærkvöld fullar tilhlökkunar fyrir nýjum degi 🙂 Þær voru ræstar með Harry Potter tónlist í morgun, en þema dagsins í dag er einmitt Harry Potter og voru allir foringjarnir í viðeigandi búningum og matsalurinn skreyttur. Eftir fánahyllingu og Biblíulestur hófst íþróttakeppni og var stemningin góð. Það er frábær dagskrá framundan og allskonar ævintýri, leikir, söngur og mikið fjör.
Við biðjum góðan Guð að gefa okkur góða dag í Vindáshlíð.
Kveðja, Jóhanna Sólrún Norðförð