Það er óhætt að segja að fjörið haldi áfram hér í Vindáshlíð.         Eftir hádegismat í gær og ,,hádegis-dans“ foringjanna fóru stelpurnar í leik sem kallaður er ,,Þrígaldraleikiirnir“. Stelpunum var skipt í 15 manna hópa og fjóru milli fjögurra stöðva.
Þær þurftu að borða eitthvað skringilegt í matsal, mæta fyrir utan kirkjuna og leita uppi sérstök orð í Biblíunni, svara erfiðum spurningum um Harry Potter og gera samvinnu-líkamsþraut á fótboltavellinum.

Í frítímanum fóru þær í sturtu, léku sér í brennó, horfðu á Harry Potter bíómynd og bjuggu til vinabönd.
Í stað hefðbundinnar kvöldvöku var Harry Potter ratleikur þar sem hvert herbergi þrufti að komast á mismunandi stöðvar þar sem þær hittu hinar ýmsu persónur úr bíómyndinni þar til þær enduðu á að finna Harry Potter sjálfan og var þá sigur unninn.

Ljúft var stelpunum eftir leikinn að hlusta á yndislega hugleiðingu ásamt persónulegum vitnisburði og syngja nokkur lög. Að lokum fengu þær sem vildu að bursta tennur í læknum, koma sér í háttinn og eiga stund með bænakonunum. Það voru þreyttar og sælar stelpur sem lögðu höfuð á kodda og sofnuðu í gærkvöld.

Í morgun voru stelpurnar vaktar með ljúfum söng foringjanna, þar sem þær gengum um ganginn, opnuðu herbergin og sungu Bjart er yfir Betlehem, en í dag er einmitt jólaþema.
Matsalurinn hefur verið skreyttu með jólaseríum, ylmandi jólatré komið upp, fallegar greinar á borðunum og foringjar klæddir í jólakjóla og með húfur í stíl.
Stelpurnar voru sannfærðar um að ekki væru jól, þar sem enn er ágúst, en þetta er bara skemmtilegt.

Jólaþemað heldur áfram í allan dag og spennan mikil í loftinu …. Hvað fáum við að gera?

Guð gefi okkur öllum yndislegan dag og góða skemmtun.
Kær kveðja, Jóhanna Sólrún Norðfjörð