Jólaþemað vakti mikla lukku í gær meðal stelpnanna. Eftir hádegismat, sem voru hamborgarar og franskar í tilefni jólaþema, var farið í ,,Jólaskottaleikinn“. Stelpunum var skipt í tvö lið, þ.e. jólasveinaliðið og hreindýraliðið. Fest voru á þær hvít skott. Leikurinn fólst í því að þær þurftu að ná skottunum frá hinu liðinu og setja þau í sína eigin fötu sem geymd var í skóginum. Liðið sem náði flestum böndum bar sigur úr býtum. Um kvöldið fóru þær í leikinn ,,Jólagjafasmugglers“ sem fólst í því að þær þurftu að fara um svæðið og finna jólagjafir og smygla þeim síðan frá fólki Whovilles fram hjá Grinch og hans mönnum og koma þeim heilu og höldnu í Jólahúsið. Fengu stelpurnar stig fyrir hverja jólagjöf sem þær komu á sinn stað.
Ef Grinch eða menn hans náðu stelpunum þurftu þær að sannfæra hann um af hverju jólin eru góður tími og frábær vegna þess að jólin snúast um Jesú og ást hans á okkur.
Eftir leikinn heyrðu stelpurnar hugleiðingu þar sem talað var við þær um miskunnsemi og mikilvægi þess að vera góð hver við aðra og eru þær svo sannarlega frábær hópur. Síðan fóru þær í háttinn og áttu ekki von á öðru en bænakonunum inn til sín þegar foringjarnir, íklæddar líflegum búningum, hlupu eftir ganginum með miklum látum og pottaslætti. Þá var komið að hinu sívinsæla náttfatapartýi. Allar drifu þær sig inn í matsal, þar sem dansað var uppi á borðum og fjörið var mikið og glæsileg skemmtidagskrá. Að lokum fengu þær að heyra fallega sögu um þakklæti. Já stelpurnar sofnuðu svo sannarlega þakklátar.
Í morgun fengu allar að sofa út, þ.e.a.s. við fórum á fætur klukkutíma seinna en venjulega. Það hefur aðeins riðlað dagskránni, en kemur þó ekki að sök. Nú hafa þær gist þrjár nætur og eru því orðnar Hlíðarmeyjar. Í tilefni þess fengu þær Coco Puffs í morgunmat og vakti það mikla lukku. Eftir morgunmat þurftu allar að ganga frá öllu dóti af gólfum fyrir skúringar og síðan var fánahylling og Biblíulestur. Það hefur verið lítilsháttar rigning og smá vindur svo ákveðið var að hafa dagskrána að mestu innandyra í dag. Ratleikur, perla, lita, föndra, skrifa póstkort og fleira.
Nú stendur yfir undirbúningur fyrir kvöldvökuna þar sem stelpurnar munu sjá sjálfar um dagskrána og fáum við foringjarnir að sjá sýninguna ,,Vindáshlíð got talent“
Við þökkum Guði fyrir góða daga.
Kær kveðja, Jóhanna Sólrún Norðfjörð