Stelpurnar vöknuðu hressar og spenntar á veisludegi, fengu sér dýrindis morgunmat og fóru í fánahyllingu. Eftir fánahyllinguna var svo haldið á morgunstund þar sem þær fengu að heyra sögu og skrifuðu eitthvað fallegt um hverja aðra. Sólin skein í dag svo auðvitað var veðrið vel nýtt í skógargöngu, blak, zúmba og aparólufjör. Kökur fyrir kaffitímann voru skreyttar og bjuggu stelpurnar einnig til skraut til að skreyta matsalinn fyrir veisluvkvöld. Eftir kaffitímann fengu stelpurnar svo dekurstund í boði starfsfólksins eftir að þær fóru í sturtu og var boðið upp á hárgreiðslu, naglalakk og fleira. Veislukvöldið hófst svo með pizzaveislu sem þær höfðu fengið að útbúa sjálfar við góðar undirtektir og var svo veislukvöldvaka þar sem foringjarnir sýndu nokkur vel valin leikrit. Kvöldkaffið var svo ekki af verri endanum en boðið var upp á kaffihúsakvöld þar sem stúlkurnar fengu nýbakaðar vöfflur og fengu þær viðurkenningar fyrir innanhúskeppni, íþróttakeppnir og hæfileikasýningu. Stelpurnar tannburstuðu sig svo í læknum eftir að hafa hlustað á frábæra hugleiðingu. Stelpurnar enduðu svo kvöldið með bænakonunum sínum og sofnuðu sáttar og þreyttar eftir frábæran dag.