Þrettán hressar stelpur lögðu af stað í flokkinn Stelpur í stuði. Þegar komið var upp í Vindáshlíð komu þær sér fyrir í herbergin sín og kynntust svæðinu og starfsfólki staðarins. Eftir hádegismatinn fóru stelpurnar í ratleik þar sem farið var út um alla Vindáshlíð að leita að spurningum um allt milli himins og jarðar og endaði ratleikurinn svo í íþróttahúsinu þar sem farið var í alls kyns leiki. Veðrið lék við okkur þar sem það var 23 stiga hiti með sól og svaka sumarstuði og var deginum að mestu leiti varið úti. Stelpurnar fengu að búa til stressbolta út blöðrum og hveiti, hoppa í hoppukastala og dansa í hitanum. Eftir kvöldmat undirbjuggu herbergin leikrit sem voru svo sýnd á kvöldvökunni seinna um kvöldið og stóðu þær sig með prýði. Sungnir voru margir Vindáshlíðarsöngvar og var svo hlustað á litla sögu frá foringja um sporin í sandinum, það hvernig Guð er alltaf með okkur þó við kannski áttum okkur ekki alltaf á því. Stelpurnar voru allar sáttar eftir daginn og sofnuðu þær allar fljótlega 🙂

Guðlaug María og Ólöf Birna
Forstöðukonur 🙂