Veisludagur hófst með smá útsofi og voru stelpurnar sáttar með það. Á morgunstundinni heyrðu stelpurnar sögu um góða hirðirinn og eftir morgunstundina var boðið upp á ýmislegt skemmtilegt, svo sem að mála grímur og skreyta möffins. Allar stúlkurnar fóru í sturtu og fengu margar þeirra hárgreiðslu. Eftir hádegismatinn var farið í göngu í brúðarslæðu þar sem stelpurnar fengu að busla smá í vatninu og fannst stelpunum það mjög gaman. Stelpurnar gerðu sig svo fínar fyrir veisludagskvöldið og fengu þær líka að gera pizzur sjálfar fyrir veisludagskvöldverðinn. Eftir matinn var smá frjáls tími þar sem þær nýttu góða veðrið og voru úti í aparólu auk þess að tína ber. Veislukvöldvakan var svo haldin með pomp og prakt en þar stigu foringjar á svið með ýmis skemmtiatriði sem slógu rækilega í gegn hjá áhorfendahópnum. Að lokum voru veittar viðurkenningar og sögð hugleiðing. Stúlkurnar fengu svo að bursta tennurnar í læknum fyrir svefninn og vakti það mikla lukku. Allar fóru sáttar að sofa eftir góðan og skemmtilegan dag!
Í dag er heimferðardagur og einnig sá dagur þegar stelpurnar urðu Hlíðarmeyjar (búnar að sofa í Vindáshlíð í 3 nætur) og fengu þær coco puffs í morgunmat. Við munum koma í bæinn um kl. 14 í dag. Þetta hefur verið góður og skemmtilegur flokkur og virðast allar stelpurnar vera mjög ánægðar með dvölina þeirra hérna. Takk fyrir að treysta okkur fyrir stelpunum ykkar!
Guðlaug María og Ólöf Birna
Forstöðukonur:)