Í gærmorgun mættu tæplega 80 hressar stelpur í Unglinga- og óvissuflokk í Vindáshlíð. Þær komu sér vel fyrir í herbergjunum sínum og fengu síðan grjónagraut í hádegismat.

Vegna mikillar rigningar og almenns leiðindaveðurs í Hlíðinni í gær var útivera gærdagsins færð inn í íþróttahús. Þar voru stelpurnar í ýmsum hópeflisleikjum og fengu að kynnast betur. Að lokinni “útiveru” dagsins fengu stelpurnar smá frjálsan tíma og gæddu sér svo á heimabakaðri jógúrtköku og kanillengjum í kaffitímanum.

Eftir kaffi spiluðu stelpurnar brennó, tóku þátt í íþróttakeppni og höfðu það notalegt fram að kvöldmat. Þá hámuðu þær í sig kjúkklingaleggi og franskar. Eftir kvöldmat var komið að kvöldvöku, en þar fóru stelpurnar í spurningaleikinn viltu vinna milljón. Að kvöldvöku lokinni fóru stelpurnar í kvöldkaffi og hugleiðingu.

Næst á dagskrá var kvöldskemmtunin, þar fór fram svokölluð bænakonuleit, þá þurftu stelpurnar að komast að því hver af foringjunum yrði þeirra bænakona út vikuna! Að því loknu var komið að því að gera sig tilbúinn í háttinn. En NEI, öllum stelpunum að óvörum voru nefnilega ekki bara eitt heldur TVÖ NÁTTFATAPARTÍ!! Það var mikið dansað, sungið og hlegið allt kvöldið og fóru stelpurnar þreyttar en mjög sáttar í rúmið.

Ég minni á að foreldrar og forsjáraðilar geta haft samband við forstöðukonu alla daga milli 11:30 og 12:00 í síma  566-7044. Það er velkomið að hringja og spyrjast frétta af stelpunum en ég minni einnig á instagram síðu Vindáshlíðar (@vindashlid) en við ætlum að reyna að posta þar í story. 

Þangað til næst,

Marta Kristín Friðriksdóttir – Forstöðukona