Gærdagurinn fór heldur betur yndislega af stað. Búið var að skreyta matsalinn með Bandaríska fánanum því það var nefnilega þemadagurinn “Vilta vestrið”. Stelpunum var boðið upp á standandi morgunmat og svo tók við frjáls tími með tilheyrandi brennó, íþróttakeppnum, slökun og vinabanda- og föndurgerð.

Í hádegismatnum borðuðu stelpurnar afbragðsgott lasagna og foringjarnir dönsuðu kúreka dans við mikinn fögnuð stelpnanna. Að hádegismat loknum fóru stelpurnar í fánahyllingu og biblíulestur, þar sem við lærðum að fletta upp í biblíunni og töluðum um gullnu regluna.

Við tók svo útivera, en það var eltinga– og þrautaleikurinn “Flóttinn úr Vindáshlíð” – þá eru stelpurnar að reyna að flýja úr Vindáshlíð og komast burt frá foringjunum sem elta þær um svæðið.

Í kaffitímanum fengu stelpurnar heimatilbúna gulrótarköku og brauð sem sló rækilega í gegn. Að kaffinu loknu var aftur frjáls tími sem var vel nýttur í að kynnast herbergisfélögunum enn frekar, keppa í brennó og taka þátt í íþróttakeppnum.

Í kvöldmat var boðið upp á hamborgara og franskar, þegar allar voru orðnar pakksaddar þá tók við kvöldvaka og þar fóru stelpurnar í leikinn “minute to win it”. Síðan var kvöldkaffi og hugleiðing, þar sem við ræddum aðeins um sjálfsmyndina og að við erum allar fullkomnar nákvæmlega eins og við erum.

Eftir hugleiðingu voru stelpurnar sendar í háttinn… EN var síðan komið á óvart með jólaballi og áramótapartí með tilheyrandi tónlist og “confetti sprengjum”. Stelpurnar fóru allar hressar í rúmið og fannst mjög gaman að fagna jólum og áramótum í júlí.

Ég minni á að foreldrar og forsjáraðilar geta haft samband við forstöðukonu alla daga milli 11:30 og 12 í síma 566-7044. Það er velkomið að hringja og spyrjast frétta af stelpunum en ég minni einnig á instagram síðu Vindáshlíðar (@vindashlid) en við ætlum að reyna að posta þar í story.

Þangað til næst,
Marta Kristín Friðriksdóttir – Forstöðukona