Þriðjudagurinn 27. júlí var einn sá skemmtilegasti sem undirrituð hefur upplifað í Vindáshlíð. Hann hófst með High school musical þema þar sem foringjarnir sýndu atriði í öllum matartímum og sápuóperan “The soap opera of HSM” var flutt fyrir stelpurnar.
Það sem helst stendur upp úr frá deginum var að með kaffinu fengu stelpurnar candyfloss og kökur, fóru í Harry potter miðnæturleik, þar sem foringjarnir voru klæddir í búninga og stelpurnar þurftu að leysa ýmsar þrautir og svara spurningum tengdum Harry Potter. Einnig fengu þær krap með kvöldkaffinu sem sló svo sannarlega í gegn.
Veisludagurinn 28. júlí fór mjög vel af stað. Stelpurnar hófu daginn á úrslitakeppni brennó þar sem Grenihlíð bar sigur úr bítum. Þema dagsins var 80s þema og eins og vanalega voru foringjarnir með skemmtiatriði og tilheyrandi búninga.
Veislukvöldsdagskráin hófst með messu í Hallgrímskirkju hér í Vindáshlíð, þar töluðum við um mikilvægi fyrirgefningarinnar. Í Kvöldmat fengu stelpurnar pizzur og krap og ýmsar viðurkenningar fyrir gott gengi í keppnum vikunnar.
Á kvöldvökunni sáu foringjar um að halda stuðinu uppi og kvöldið endaði inni í matsal í alvöru útilegustemingu þar sem spilað var á gítar og sungin saman útilegulög.
Það voru mjög þreyttar stelpur sem sofnuðu hér í kvöld eftir yndislegan dag. Á morgun fer rútan frá Vindáshlíð kl 14:00 og verður því komin upp á Holtaveg 28 um klukkan 15:00. Þau ykkar sem að eigið börn sem ekki eru skráð í rútu verðið því að vera komin upp í Vindáshlíð að sækja dömurnar ekki seinna en 14:00.
Vinsamlegast látið mig vita ef þið ætlið að sækja dömurnar ykkar, ef ég veit ekki af því nú þegar, svo að farangurinn lendi ekki óvart inn í rútunni. Það er hægt að hafa samband við mig á símatíma á morgun milli 11:30 og 12:00 í síma 566-7044.
Þessi flokkur hefði ekki getað farið betur. Allt saman frábærar stelpur sem var æðislegt að hafa í Hlíðinni þessa vikuna. Kærar þakkir fyrir samveruna og lesturinn.
Bestu kveðjur,
Marta Kristín Friðriksdóttir – Forstöðukona