Í gærmorgun (sunnudaginn 24.07.2022) mættu 74 eldhressar stelpur til okkar í Hlíðina, þeim var í flýti skipt niður í 10 herbergi og við tók frjáls tími þar sem stelpurnar tóku upp úr töskum og komu sér almennilega fyrir. Í hádegismat var síðan ljúffengur grjónagrautur og slátur. Eftir hádegismat fórum við allar saman upp að fánastönginni, drógum upp fánann og sungum fánasönginn. Að fánahyllingu lokinni héldum við brunaæfingu og stóðu stelpurnar sig ótrúlega vel. Að henni lokinni var komið að útiveru og fóru stelpurnar fyrst í allskonar leiki í íþróttahúsinu með það að markmiði að hrista hópinn aðeins saman og svo skiptum við stelpunum í lið og þær fóru í leikinn “Capture the flag” og hlupu um skóginn að reyna að ná fána hins liðsins.
Í kaffinu okkar í gær fengu stelpurnar súkkulaðiköku og kryddbrauð að borða sem alltaf stendur undir væntingum hér hjá okkur í Vindáshlíð. Að kaffi loknu var komið að brennóleikjum og íþróttakeppnum, stelpurnar voru mjög duglegar að taka þátt og það verður mjög spennandi að fylgjast með framvindu brennókeppninnar í vikunni, hvaða herbergi verður krýnt brennómeistarar Vindáshlíðar Unglingaflokks 2022 og hver af stelpunum mun hljóta titilinn íþróttadrottning unglingaflokks 2022.
Í kvöldmat var boðið upp á kjúklingaleggi og franskar og að mat loknum tók við kvöldvaka þar sem stelpurnar fóru í spurningaleikinn “Viltu vinna milljón”. Eftir kvöldvöku fengu stelpurnar kvöldkaffi og síðan fóru þær á hugleiðingu þar sem við ræddum um mikilvægi þess að hlusta ekki á neikvæðar raddir í kringum okkur og óuppbyggjandi athugasemdir sem gera ekkert gagn og draga einungis úr krafti okkar.
Í Unglingaflokki er alltaf mikið fjör og eftir hugleiðingu tók við hin víðfræga Bænakonuleit Vindáshlíðar, en að þessu sinni með breyttu sniði því við komum stelpunum fyrst á óvart með NÁTTFATAPARTÍ sem þróaðist út í dans -og rappkeppni milli foringja og þessi keppni afhjúpaði síðan hvaða herbergi fékk hvaða bænakonu (pínu flókið, ég veit, en treystið mér þetta var æðislegt)!
Undirrituð hefur aldrei orðið vitni af annarri eins skemmtun í Vindáshlíð.
Ég er ótrúlega spent fyrir komandi dögum og hlakka til að gefa ykkur smá innsýn í lífið og fjörið hjá okkur í kjósinni.
Ég minni á að foreldrar og forsjáraðilar geta haft samband við forstöðukonu alla daga milli 11:30 og 12:00 í síma 566-7044. Það er velkomið að hringja og spyrjast frétta af stelpunum og ég minni einnig á instagram síðu Vindáshlíðar (@vindashlid) og flickr myndasíðu okkar: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/with/72177720300536609 en hér getið þið séð myndir af dömunum á meðan þær eru í Hlíðinni.
Þangað til næst,
Marta Kristín Friðriksdóttir – Forstöðukona