Þriðjudagur 26.07
Dagurinn í dag einkenndist af spæjaraþema þar sem foringjar brugðu sér í hlutverk spæjara sem héldu uppi fjörinu. Æsispennandi framhaldssaga um spæjara sem reyna að leysa mikla ráðgátu var flutt í öllum matartímum fyrir stelpurnar (þið getið séð fyrir ykkur „Jón spæjó“ hittir „harry og heimi“ hittir „Sherlock Holmes“ og „Nancy Drew“ að leysa ráðgátu).
Það var aftur boðið upp á standandi morgunmat til klukkan 11:00 þar sem skemmtun gærdagsins hélt okkur örlítið lengur vakandi en upphaflega planið var. Eftir morgunmat hélt æsispennandi brennókeppnin okkar áfram og stelpurnar tóku líka þátt í íþróttakeppnum. Í hádegismat fengu stelpurnar kjötbollur og kartöflumús að borða. Eftir hádegismat var farið í fánahyllingu og síðan beinustu leið í biblíulestur þar sem við töluðum aðeins um Faðir vorið og mikilvægi þess að bænin komi frá fallegum stað í hjarta okkar.
Í útiveru fóru stelpurnar í leikinn „Útilegumaðurinn“ þar sem þær þurfa að leysa allskonar þrautir á meðan foringjarnir ýmist reyna að hjálpa eða villa um fyrir þeim. Eins og ég minntist á í byrjun þessarar færslu þá var spæjaraþema hjá okkur í Hlíðinni og í kaffitímanum hélt framhaldssagan/leikrit foringjanna (nokkurskonar „murder mystery“ saga“) áfram. Foringjarnir skiptust á að reyna að sanna sakleysi sitt og komast að því hver þeirra væri í raun og veru sú seka.
Í kaffitímanum var boðið upp á bananabrauð og möndluköku með bleikum glassúr við mikinn fögnuð allra hér í húsinu. Murder mystery sagan okkar hélt áfram og fylgdust allir ægilega spenntir með. Eftir kaffi var frjáls tími fram að kvöldmat þar sem fiskur í raspi með kartöflubátum var á boðstólnum.
Í kvöldvöku fór fram hin sívinsæla hæfileikakeppni „Vindáshlíð got talent“ þar sem stelpurnar fengu tækifæri til að láta ljós sitt skína og keppa til sigurs. Þegar kvöldvöku lauk fóru stelpurnar í kvöldkaffi, þar sem lokahluti leikrits okkar var fluttur og áttu stelpurnar svo að giska á hver hinn seki væri… Eftir kvöldkaffi fórum við saman í hugleiðing og ræddum um söguna „sporin í sandinum„.
Dömurnar héldu að það næsta á dagskrá væri háttatími EN nei heldur betur ekki – við tók óvænt EUROVISION PARTY! Þar sem foringjar sýndu fjöldan allan af eurovision atriðum og kepptust um að vera uppáhaldsatriði stelpnanna. Eftir eitt besta europarty sem ég hef orðið viti að fóru stelpurnar í háttinn og steinsofnuðu eftir æsispennandi og skemmtilegan dag hér í Vindáshlíð.
Ég minni á að foreldrar og forsjáraðilar geta haft samband við mig alla daga milli 11:30 og 12:00 í síma 566-7044. Það er velkomið að hringja og spyrjast frétta af stelpunum og ég minni einnig á instagram síðu Vindáshlíðar (@vindashlid) og flickr myndasíðu okkar: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720300815110 en hér getið þið fylgst með okkur og séð myndir úr Hlíðinni.
Eins ef þið ætlið að sækja unglingana ykkar hingað upp í Hlíð á morgunþá þurfið þið að koma fyrir kl 14:00 og láta mig vita með góðum fyrirvara í síma 566-7044, svo hægt sé að tryggja að töskurnar þeirra fari ekki með í rútuna.
Þangað til næst,
Marta Kristín Friðriksdóttir – Forstöðukona