Miðvikudagur 27.07
Í gær var veisludagur hjá okkur í Vindáshlíð! Þvílíkt og annað eins party hefur sjaldan sést hér í Kjósinni.
Dagurinn hófst með HARRY POTTER þema þar sem matsalurinn hafði verið skreyttur sem matsalur Hogwarts skóla og stelpurnar fengu til sín bréf þar sem stóð að þeim hefði verið boðin skólavist við þann virta skóla galdra og seiða.

Í hádegismat var boðið upp á plokkfisk með rúgbrauði og eftir hádegismat fór fram úrslitaviðureign okkar í brennó, þar sem Grenihlíð stóð uppi em sigurvegari!

Í kaffitímanum fengu dömurnar kanillengjur og gulrótaköku að borða sem hitti gjörsamlega í mark. Eftir kaffi átti að vera útivera en vegna almenns leiðindaveðurs hjá okkur þá fórum við í ægilega skemmtilegan leik sem við kölluðum Hogwarts-ævintýrahúsið, en þá voru stelpurnar settar í nokkra hópa, það var bundið fyrri augu þeirra og þær leiddar um húsið og hittu fyrir allskyns verur og karaktera úr Harry Potter.
Fyrir kvöldmat fórum við í messu þar sem undirrituð talaði um miskunsama samverjann og tvöfalda kærleiksboðorðið og mikilvægi þess að koma vel fram við náungann en aldrei gleyma að elska sjálfan sig.

Eftir messu var komið að veislumat þar sem boðið var upp á dýrindis pizzur og sumarkokteil. Að mat loknum var komið að óskarsverðlaunahátíðinni í Kjósinni, þar fengu sumir viðurkenningar og verðlaun fyrir gott gengi í keppnum vikunnar.
Eftir óskarinn héldu foringjar uppi stuðinu og sýndu leikrit og ýmis atriði á veislukvöldvökunni okkar.
Það var síðan boðið upp á ís í kvöldkaffi og við fórum saman á stutta hugleiðingu. Bænakonurnar eyddu síðan síðasta kvöldinu með stelpunum og það var spjallað lengi frameftir.

Takk fyrir mig og takk að fylgjast með, það er búið að vera frábært að fá að kynnast krökkunum ykkar hér í Hlíðinni, ég veit að þær eru langflestar spenntar að koma heim og fá stórt knús.

Rútan leggur af stað hér úr Hlíðinni kl 14:00 og stefnum við á að vera á Holtavegi 28 um kl. 15:00 í dag, (fimmtudaginn 28.07.2022).

Þangað til næst,
Marta Kristín Friðriksdóttir – Forstöðukona