Hér vöknuðu glaðar stelpur í morgun, fengu sér morgunmat og hylltu fánann áður en við héldum á biblíulestur í morgun. Þar fórum við yfir söguna um miskunnsama samverjann og hvernig við getum verið góðar við alla í kringum okkur. Að biblíulestri loknum tók við brennókeppnin, föndur, íþróttakeppnir og fleira skemmtilegt.

Í hádegismat var lasagne sem rann ljúflega niður og eftir matinn var brunaæfing. Það er jú mikilvægt að allir viti hvert á að fara ef þarf að rýma húsið. Svo tók við ratleikur þar sem herbergin mynduðu hvert sitt lið og reyndu að svara spurningum af ýmsu tagi. Það var gaman að sjá samvinnuna hjá stelpunum.

Eftir kaffi hélt brennókeppnin áfram þar sem leikgleðin var við völd þrátt fyrir að sumar þyrftu að takast á við tap. Þannig er nú bara lífið. Kjúklingaborgararnir voru vinsælir í kvöldmatnum og allar fórum við sáttar frá borði. Kvöldvakan heppnaðist ljómandi vel og eftir hugleiðingu var boðið upp á óvænt náttfatapartý þar sem stelpurnar dönsuðu uppi á borðum og skemmtu sér konunglega. Ekki spillti fyrir að fá ís áður en farið var að sofa.

Þegar þetta er skrifað er komin ró í húsið enda komið miðnætti og morgundagurinn bíður með sín ævintýri.

Myndin er tekin á brunaæfingunni í dag.