Enn einn dagurinn að kveldi kominn hér í Vindáshlíð en hann hófst eins og aðrir með morgunmat, fánahyllingu og biblíulestri. Í dag ræddum við um Biblíuna og hvaða hamingjuráð hún getur gefið okkur. Stelpurnar eru svo líflegar og ræðnar, hafa margt gott til málanna að leggja og eru einnig duglegar að spyrja.
Pítan í hádeginu féll í góðan jarðveg og eftir matinn fór hópurinn í réttirnar og lék sér saman þar. Það var greinilega gaman því þær komu blaðskellandi til baka, kátar og glaðar. Að því loknu tók við áframhaldandi brennókeppni, æfingar fyrir kvöldvöku, íþróttakeppnir og fleira skemmtilegt.
Allar tóku þær vel til matar síns í kvöld en nú var það pylsupasta sem var á boðstólum. Kvöldvakan heppnaðist vel en fjögur síðustu herbergin sáu um atriðin að þessu sinni. Leikrit, dans og góðlátlegt grín að foringjum sló heldur betur í gegn og söngurinn ómaði hér um allt hús.
Ró var komin í hús fyrir miðnætti og við vonum að allar hvílumst við vel í nótt enda síðasti heili dagurinn okkar saman framundan.
Hlýjar kveðjur úr hlíðinni,
Álfheiður forstöðukona