Þá er loksins komið að smá fréttum af okkur hér í Hlíðinni en þar sem að gleðin hefur verið mikil hafa fréttir aðeins fengið að bíða en biðin er loks á enda.

Í gær mættu hingað í Hlíðina 80 hressar unglings stelpur sem ætla að dvelja næstu daga í unglingaflokknum okkar hér í Vindáshlíð. Þær voru ekkert smá spenntar og peppaðar enda flest allar komið áður og vita því að hér bíða þeirra mikil ævintýri. Þar sem við erum í unglingaflokk þá verða ævintýrin mun meiri en í hefðbundnum ævintýraflokkum og munum við starfsfólk reyna hvað sem við getum til þess að koma þeim á óvart.

Eftir að búið var að kynna allar reglurnar hér í Vindáshlíð fóru stelpurnar í herbergin sín sem að þær munu dvelja í næstu daga. Allar vinkonur fá að vera saman í herbergi en þó eru margar að deila herbergi með stelpum sem að þær þekktu ekki fyrir og byrjuðu því á því að kynnast nýju vinkonum sínum ásamt öllu hér í Vindáshlíð.

Þegar að búið var að koma sér fyrir var komið að kaffitíma en þar var á boðstólum kex og hin sí vinsæla jógúrtkaka sem að öllum finnst svo góð hér í Vindáshlíð og sérstaklega núna því að hún kom en þá volg á borðið til stelpnanna. Eftir kaffi var síðan komið að frjálsum tíma en í honum hófust  íþróttakeppnirnar þar sem stelpurnar keppa sín á milli í ólíkum en fjörugum og skemmtilegum keppnum í gegnum flokkinn en eins var margt annað í boði. Brennókeppnin hóf einnig göngu sína þar sem að herbergin keppast sín á milli að reyna að hljóta titilinn brennó meistarar unglingaflokks 2025, keppnin er mjög hörð og það er greinilegt að margar eru komnar til þess að reyna að vinna.

Í kvöldmat var Lasagna sem að stelpurnar í eldhúsinu voru búnar að matreiða sem að sjálfsögðu sló í gegn. Eftir kvöldmat var svo komið að fyrstu kvöldvökunni en þar var farið í hin vinsæla og skemmtilega leik Flóttinn úr Vindáshlíð. Flóttinn gengur út á það að foringjarnir eru allir orðnir veikir af foringjabólunni og því er best að stelpurnar flýi undan þeim, en markmið leiksins var að vera ekki fangaður í fangelsi og finna griðastað með hjálp vísbendinga út um svæðið. Stelpurnar skemmtu sér ekkert smá vel í leiknum þrátt fyrir rigningu og rok sem að þær létu alls ekki stoppa sig. Eftir kvöldvöku var haldið í kvöldkaffi þar sem boðið var upp á ávexti og kex en svo var haldið á hugleiðingu. Á hverju kvöldið í Vindáshlíð er hugleiðing þar sem að foringi segir fallega sögu eða orð, við syngjum saman róleg lög og þökkum fyrir daginn. Að þessu sinni var Erna með hugleiðingu um hugrekki og aldrei að gefast upp.

Loks var komið að því sem að stelpurnar biðu spenntar eftir allan daginn en það var bænakonuleitin. En hvert og eitt herbergi fær sína bænakonu úr foringjahópnum sem fylgir herberginu í gegnum flokkinn. Bænakonuleitin tók mislangan tíma hjá öllum herbergjunum en að lokum fundu öll herbergin sína bænakonu. Þær enduðu svo daginn með stelpunum og ekki leið að löngu þar til það var komin ró í húsið og allar steinsofnaðar enda vel þreyttar eftir frábæran dag.

Í dag vöknuðu stúlkurnar frekar seint en í þessum flokk verður farið aðeins seinna að sofa miðað við venjulega og því leyfum við stelpunum að sofa til 10:00 ef að þær vilja. Morgunverðurinn var á boðstólum til 11:00 en eftir hann tók við frjáls tími þar sem að brennó keppnin var á sínum stað ásamt íþróttum og fleira.

Dagurinn í dag einkenndist af murder mystery þema þar sem foringjar brugðu sér í hlutverk og héldu uppi fjörinu. Æsispennandi framhaldssaga var flutt í öllum matartímum fyrir stelpurnar og þær reyndu að leysa ráðgátuna um hver drap Darra Seljárn.

Í hádegismatinn í dag var boðið upp á kjúklinga pítur en að honum loknum var farið upp að fánastöng og við flögguðum fánanum en það er hefð hér í Vindáshlíð. Eftir fánahyllingu var svo haldið niður í kvöldvökusal á morgunstund með forstöðukonu þar sem að þessu sinni ræddum við saman um trúnna og kærleikann.

Í útiveru var farið í leik sem heitir bible smugglers. Þá eiga þær að safna biblíum í skóginum (hvítir steinar með krossi) og koma þeim í neðanjarðarkirkju, en á sama tíma eru tollverðir (foringjar) að reyna að ná þeim og stinga þeim í fangelsi. Mjög skemmtilegur leikur þar sem það lið sem er með flestar biblíur í lok leiksins vinnur.

Eftir útiveru var komið að kaffitímanum en þar var á boðstólum smákökur og kanilsnúðar en svo var komið aftur að hefðbundnum frjálsum tíma með íþróttum, brennó og fleira. Í kvöldmatinn var boðið upp á skyr bar sem vakti mjög mikla lukku.

Þegar að kvöldmatnum lauk héldu við upp í rútu sem fór með okkur í Sundlaugina að Hlöðum þar sem við fengum laugina út af fyrir okkur og vorum með heljarinnar sundlaugar partý í tvo klukkutíma. Þar var mikið stuð og farið í leiki, sumir fóru í saunu og aðrir tjilluðu í pottinum. Bæði starfsfólk og stúlkur skemmtu sér konunglega og voru virkilega ánægðar með ferðina.

Þegar að heim var komið voru stelpurnar orðnar smá svangar enda tekur á að vera í sundlaugar partýi og því var boðið upp á grillaðar pulsur í kvöldkaffi. Þar sem að veðrið var gott borðuðum við pulsurnar að sjálfsögðu úti.

Loks var haldið á hugleiðingu þar sem að Steinunn talaði um æðruleysis bænina ásamt því að vera góð við hvort annað og okkur sjálfar. Bænakonurnar enduðu svo daginn með sínu herbergi. Það fóru þreyttar en ekkert smá glaðar stelpur að sofa hér í kvöld.

Þetta er alveg hreint yndislegur stúlknahópur sem er mættur hingað í Hlíðina. Allar svo glaðar og flottar og okkur hlakkar mikið til að fá að kynnast þeim betur hér í unglingaflokk.

Ég minni á að foreldrar og forsjáraðilar geta haft samband við forstöðukonu alla daga milli 11:30 og 12:00 í síma  566-7044. Það er velkomið að hringja og spyrjast frétta en ég mun að sjálfsögðu hafa samband við ykkur ef að eitthvað kemur upp á hjá ykkar stelpum. Annars ætlum við að vera dugleg að setja inn bæði myndir og fréttir hér á Vindashlid.is.  Að gefnu tilefni minni ég einnig á instagram síðu Vindáshlíðar (@vindashlid)

Myndirnar úr flokknum er hægt að finna hér: Myndir

Hlýjar kveðjur úr Hlíðinni,
Elísa Sif forstöðukona