(Mánudagur 25.07.2022)
Í sannleika sagt veit ég ekki hvernig ég á að koma þessum ÆÐISLEGA degi í orð! VÁ, eftir frábært náttfatapartí í gærkvöldi fengu stelpurnar að sofa aðeins út og var boðið upp á standandi morgunmat til kl 11:00 sem hitti beint í mark hjá stelpunum sem flestar voru dauðþreyttar eftir allt fjörið í gær. Þær vöknuðu við tónlist úr MAMMA MIA og voru foringjarnir búnir að skreyta húsið í MAMMA MIA stíl. Eftir morgunmat tóku við brennókeppnir, íþróttakeppnir, vinabandagerð og föndur í föndurherberginu okkar.
Í hádegismat fengu stelpurnar mexíkósúpu að borða og í matartímanum sýndu foringjarnir fyrsta hluta frumgerða söngleiksins „MAMMA MIA Í VINDÁSHLÍГ þar sem upprunalegu sögunni er örlítið breytt og Sophie tekst á við ýmis vandamál tengd afmælisveislunni sinni…
Eftir hádegismat fórum við í biblíulestur þar sem við töluðum almennt um biblíuna og hvernig hún er upp sett ásamt því að ræða um versið “Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.”
Eftir biblíulestur fóru stelpurnar í MAMMA MIA leik þar sem foringjar (í hlutverkum persóna úr Mamma mia) leiddu þær um svæðið og létu stelpurnar hjálpa sér með ýmis verkefni. Leikurinn endaði á því að FLUGVÉL KOM FLJÚGANDI í lágflugi yfir svæðið og flugstjórinn hennti karamellum út á fótboltavöllinn okkar fyrir stelpurnar (nei ég er ekki að grínast!!)
Í kaffinu var boðið upp á jógúrtköku og amerískar smákökur og við héldum áfram með framhaldssöngleikinn “MAMMA MIA Í VINDÁSHLÍД og eftir þessar kræsingar fengu stelpurnar frjálsan tíma.
Í kvöldmat fengu stelpurnar tortillur að borða (og lokahluti söngleiksins okkar var sýndur!). Eftir mat fórum við niður í kvöldvökusal að horfa á bíómyndina Twilight þar sem stelpunum var boðið upp á nammi, popp og kók – tæknin byrjaði reyndar aðeins að stríða okkur þegar leið á myndina og þurftum við að hætta að horfa áður en myndin kláraðist en það gerði ekki að sök þar sem við drifum okkur í (plat) hugleiðingu. Þegar þessi (plat)hugleiðing var nýbyrjuð komu foringjarnir æðandi inn í setustofu klæddar öllu svörtu með vampírutennur og gerviblóð og fóru í vampíru-eltingaleik um svæðið okkar.
EN þegar þessum æsispennandi leik lauk hófst alvöru hugleiðingin okkar þar sem við fjölluðum almennt um þakklæti og mikilvægi þess að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur.
Undirrituð fór þreytt og sátt í háttinn eftir enn einn frábæran dag í Vindáshlíð.
Ég minni á að foreldrar og forsjáraðilar geta haft samband við forstöðukonu alla daga milli 11:30 og 12 í síma 566-7044. Það er velkomið að hringja og spyrjast frétta af stelpunum og ég minni einnig á instagram síðu Vindáshlíðar (@vindashlid) og flickr myndasíðu okkar: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720300815110 en hér getið þið fylgst með okkur og séð myndir úr Hlíðinni.
Eins ef þið ætlið að sækja unglingana ykkar hingað upp í Hlíð á fimmtudaginn þá þurfið þið að koma fyrir kl 14:00 á fimmtudaginn og láta mig vita með góðum fyrirvara í síma 566-7044, svo hægt sé að tryggja að töskurnar þeirra fari ekki með í rútuna.
Þangað til næst,
Marta Kristín Friðriksdóttir – Forstöðukona